Search
Close this search box.

Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar. Það hefur sitthvað gleðilegt gerst og allt hefur tilhneigingu til að fara á besta veg, eins og segir í bókum.

Við Ragnheiður, framkvæmdastjóri, hittum kollegana í NFOR, Norræna þýðenda- og höfundaráðinu, á dögunum. Fyrirferðarmest var umræðan um hljóðbækur og höfundarétt. Talsmaður Storytel hélt erindi um starfssemi þessarar ört vaxandi hljóðbókaútgáfu: https://www.storytel.com/ Í kjölfarið höfum við fundað með Stefáni Hjörleifssyni, forsvarsmanni fyrirtækisins hérlendis, enda hyggur Storytel á landvinninga á Íslandi. Brýnt er að gera sterka samninga fyrir hönd höfunda og standa þannig vörð um höfundaréttinn um leið og stuðlað er að fjölbreyttari leiðum til bóklesturs. Mál þessi eru í nákvæmri skoðun hjá okkur og lögmanni RSÍ og í haust stefnum við svo á ítarlegan félagsfund um hljóðbókamálin með sérstakri áherslu á Storytel. Við munum taka mið af reynslu okkar kollega á norðurlöndum í þessum efnum.

Þá sótti framkvæmdastjóri fund Evrópska rithöfundaráðsins – EWC í byrjun júní. Kollegar okkar í Evrópu óttast mjög um sinn hag og finnst að sér þrengt. Sérstaklega er varað við þeirri tilhneigingu að deila höfundarétti með útgefendum. Forsvarsmenn rithöfunda alls staðar í Evrópu standa fast á þeirri skilgreiningu að höfundarétturinn sé ævinlega einstaklingsbundinn og miðist við skapara verksins. Það er líka víðar en á Íslandi sem höfundar þurfa að berjast fyrir því að fá greitt fyrir upplestra og heimsóknir. „Ordet är fritt men inte gratis,“ segja Svíar og Svisslendingar hafa nýlega hleypt af stokkunum átakinu „Soyez RemunérAuteurs“.Slagorðaherferðir kollega okkar í Evrópu eru skilvirkar og við stefnum á að fara í slíkt verkefni með haustinu. Tinna, verkefnisstjóri, og Vilhelm, stjórnarmaður, munu halda utan um þá hugmyndavinnu.

IHM, Innheimtumiðstöð rétthafa, er sjóður sem geymir bætur úr ríkissjóði fyrir löglega afritun verka á rafrænum og stafrænum miðlum. Þessi sjóður hefur nánast horfið á undanförnum áratug, en í gjörbreyttu tækniumhverfi hefur hann síst glatað gildi sínu. Stjórnvöld samþykktu í fyrra að stækka þennan sjóð upp í um 250 milljónir króna sem deilast niður á félög og stofnanir sem eiga aðild að IHM og þjóna sem veitustofnanir.  RSÍ er veitustofnun fyrir þetta fjármagn til ólíkra textahöfunda, hvort heldur innan félags eða utan. Nú þegar sjóðurinn stækkar á ný mun starfshópur á vegum RSÍ hanna gagnsætt og aðgengilegt úthlutunarkerfi úr þessum sjóði. Nýafstaðinn er aðalfundur IHM, en einungis um fimmtungur heildarupphæðar ársins 2017 hefur skilað sér úr ríkissjóði í þennan söfnunarsjóð það sem af er ári og viðræður við ríkisvaldið standa enn yfir um þessar greiðslur.

Menntamálaráðherra hyggst setja af stað starfshóp sem koma á með tillögur að bókmenningarstefnu. Til stendur að skoða íslenska bókaútgáfu og aðstæður hennar. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, RSÍ, Hagþenki, Miðstöð íslenskra bókmennta, mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.  Hópurinn á að skila tillögum um hvernig stuðningskerfi rithöfunda sé best háttað og hvernig námsbókum og útgáfu þeirra sé best fyrir komið. Einnig verður fjallað um umhverfi rafræns lesefnis og hljóðbóka, útgáfu barnabóka með sérstöku tilliti til myndskreyttra verka og léttlestrarbóka. Fjalla á um hvernig auka megi kaup safna á bókakosti og sitthvað fleira sem starfshópurinn telur brýnt að ræða.

Samningamálin verða áfram til skoðunar á haustdögum. Enn standa yfir samningaviðræður við RÚV og verður þeim framhaldið að loknum sumarleyfum. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, er formaður nefndarinnar og hefur þar til fulltingis Sindra Freysson og Ottó Geir Borg. Vonir standa til þess að það takist að ljúka samningum við RÚV fyrir árslok.

Nýjum starfsstyrkjum úr Höfundasjóði RSÍ var úthlutað í fyrsta sinn nú í júní. Auglýst var eftir umsóknum í maí en alls sóttu 60 höfundar um og 10 höfundar fengu hver um sig starfsstyrk að upphæð 350.000 kr. Rithöfundasamband Íslands óskar þeim til hamingju og góðs gengis í ritstörfum sínum.

Menntamálaráðherra dró lappir við að skipa nefnd svo úthluta mætti úr Bókasafnssjóði nú á vordögum. Málið leystist á elleftu stundu og var nefndin loks skipuð með hraði eftir opið bréf og áskorun til ráðherra frá formönnum RSÍ, Hagþenkis og Myndstefs og greitt var úr sjóðnum um leið og nefndin kom saman.

Hið ánægjulega gerðist í vor að ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í fyrsta sinn og það var Sigurður Pálsson sem hlaut verðlaunin fyrir bók sína Ljóð muna rödd. Félagsmaður okkar, Kári Tulinius, kom þessum löngu tímabæru verðlaunum á koppinn. Maístjarnan er í samstarfi RSÍ við Landsbókasafn – Háskólabókasafn og leggur RSÍ til verðlaunafé.

Gaman er að geta þess að Gröndalshús í Grjótaþorpi er komið í gagnið hjá Bókmenntaborginni. Það er afar gleðilegt að sjá hve vel hefur til tekist, en Ragnheiður Þorláksdóttir, sem löngum var kennd við Sögufélagið, kom að máli við RSÍ og viðraði áhyggjur sínar af örlögum hússins með þeim afleiðingum að stofnaður var hollvinahópur sem hóf samtal við Reykjavíkurborg um skáldaskjól. Hafi Ragnheiður þakkir fyrir stóra sýn. Húsið er funda- og sýningahús auk vinnuaðstöðu sem leigð verður út til höfunda og fræðimanna. Einnig er skáldaskjól og fræðimannsíbúð í kjallara hússins. Íbúðin verður inni í bókunarkerfi RSÍ á heimasíðu og stendur erlendum höfundum og þýðendum til boða sem vilja koma hingað til að vinna.

Rithöfundasambandið er öflugt bandalag skrifandi stétta. Þannig fjölgar félagsmönnum stöðugt og er þar um að ræða virka höfunda fjölbreytts efnis, svo sem fræðihöfunda, ljóðskáld og leikskáld, skáldsagna- og handritshöfunda og barnabókahöfunda. Nú eru félagar orðnir 509 talsins. Það er afar ánægjulegt enda úreldist aldrei mátturinn sem býr í mörgum.

Skrifstofa Rithöfundasambandsins verður lokuð vegna sumarleyfa í fjórar vikur frá 13. júlí til 13. ágúst.

Gangi ykkur ritstörfin sem best og njótið sumardaganna.

Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email