Search
Close this search box.

Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar!

Hér í Gunnarshúsi er alla daga unnið að því að styrkja stoðir ritlistarinnar.  Samningavinna er hafin á milli RÚV og RSÍ, en í samninganefnd RSÍ eru Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, Sindri Freysson og Ottó Geir Borg. Gamlir samningar eru teknir upp og unnið að því að lenda nýjum og nothæfum samningum um efni í útvarpi, sjónvarpi og á öðrum rafrænum miðlum. Við höfum óskað eftir viðræðum við bókaútgefendur til að skoða útgáfu- og þýðingasamninga ásamt því að ræða önnur sameiginleg hagsmunamál. Þá erum við á fundalista menntamálaráðherra og göngum fast á eftir því að fá fund með honum hið fyrsta um ritlistina og læsið í landinu.

Menntamálaráðherra er fagráðherra tungumáls og ritlistar og á sem slíkur að funda reglulega með hagsmunaaðilum. Ég vænti þess að það samtal hefjist innan tíðar. Við áttum gott samstarf við fyrrverandi menntamálaráðherra þótt ekki skilaði það afnámi virðisaukaskatts á bækur eða ýmsu öðru á óskalista okkar. Hinsvegar kom út úr því samstarfi myndarleg hækkun í Bókasafnssjóð sem fór úr 23 milljónum króna í ríflega 70 milljónir í stjórnartíð fyrrverandi ráðherra. En auðvitað er það samt ósköp lítilsverð upphæð fyrir afnot og aðgang almennings að öllum bókmenntum í landinu og nýr ráðherra þarf að láta verkin tala og stækka til muna sjóðinn. Þarna er ekki um að ræða styrki heldur beinar greiðslur fyrir afnot og það hefur stundum tekið tíma að útskýra það fyrir stjórnmálamönnum. Sanngjörn og réttmæt staða þessa sjóðs er að minnsta kosti 300 milljónir króna á ári miðaði við núgildandi verðlag, auk þess sem hann þarf að komast í mun stöðugra umhverfi svo afnotagjöld af bókum séu ekki háð geðþótta ráðamanna hverju sinni. Þá höldum við áfram að hamra á mikilvægi þess að afnema virðisaukaskatt á bókum, allt þar til ráðamenn gera sér grein fyrir alvöru máls og taka þá ábyrgu ákvörðun að hætta að skattpína bókmenntir. Katrín Jakobsdóttir tók þessa umræðu upp á Alþingi á dögunum og var ánægjulegt að finna fyrir stuðningi á þingi fyrir því að afleggja þennan ósið.

Þá má geta þess að viðræður eru að hefjast á milli RSÍ og menntamálaráðuneytis vegna samnings við Hljóðbókasafn.

Gunnarshús er mikið notað. Erlendir gestir skiptast á að nýta íbúð í kjallara og félagsmenn vinna á skrifstofum efri hæðar. Sögufélagið er í Norðurstofu og fundir og mannfagnaðir eru að staðaldri í húsinu. Framundan er spennandi sviðslistamálþing í Gunnarshúsi og verða lögðu undir það tvö kvöld, 14. og 27. mars, svo takið dagana endilega frá.  Hlín Agnarsdóttir hefur komið að því skipulagi. Nýlega var í húsinu ánægjulegur fundur þar sem Síung – félag barnabókahöfunda var endurvakið. Það er mikill styrkur að hafa innanhúss starfandi hagsmunahópa fyrir mismunandi greinar og svo gott að barnabókahöfundar taki höndum saman og þétti raðirnar.

Með aðgangi að nýju póstkerfi getur skrifstofa RSÍ nú auðveldlega staðið fyrir könnunum af ýmsu tagi. Slíkar kannanir verða nýttar til að styrkja gagnabankann okkar og kortleggja ritlistina, en það er nauðsynlegt til að skýra markmiðin og herða baráttuna fyrir ritverkafólk. Kannanir munu miðast við úrtakshópa. Sama kerfi gerir okkur nú kleift að hafa allar kosningar rafrænar á vegum félagsins. Því brýnum við fyrir félagsmönnum að taka þátt í lýðræðinu. Með virkri þátttöku byggjum við öflugt stéttarfélag.

Rithöfundasambandið hefur stækkað hratt undanfarin misseri. Það er ásókn í félagið og teljum við nú rétt undir fimmhundruð félagsmönnum. Þar hafa bæst í hópinn ungir ritlistamenn og eldri sem skrifa inn í alla og ólíka miðla samfélagsins. Við félagsmenn eigum það sameiginlegt að vilja lifa af ritstörfum og vera dugandi gæslumenn tungu og menningar.

Jæja, þetta átti nú ekki að verða svona langt, en að lokum fagna ég nýjum ljóðaverðlaunum sem Rithöfundasambandið og Landsbókasafnið standa saman að. Það er okkar maður, Kári Tuliníus, sem hefur veg og vanda að þessu verkefni ásamt öðru góðu fólki. Ákveðið hefur verið að halda ljóðaverðlaunahátíðina í maí og afhenda verðlaun fyrir bestu ljóðbók sem skilað hefur verið til Landsbókasafns á árinu 2016.

Þá bið ég alla vel að skrifa og lifa.

Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email