Search
Close this search box.

Jæja … frá formanni!

Jæja! Góður aðalfundur að baki. Takk fyrir hann og fyrir gott samtal. Við þokuðum málum eins og alltaf og verklag við tilnefningar til úthlutunarnefndar starfslauna rithöfunda var kynnt, en því verkferli er lokið af hálfu RSÍ.

Fyrir tilstuðlan RSÍ var í vetur kallaður saman starfshópur á vegum BÍL. Þetta gerðum við til að lengja arminn enn meir við tilnefningar til úthlutunarnefndar. Starfshópurinn útbjó tillögur að verklagsreglum fyrir aðildarfélög BÍL að fara eftir. Þessar tillögur voru svo samþykktar á félagsfundi hjá okkur í marslok. Í kjölfarið var skipuð uppstillingarnefnd sem nú hefur skilað niðurstöðum og tilnefnt menn í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Uppstillingarnefnd skilaði þeim nöfnum inn til skrifstofu RSÍ sem hefur haft samband við tilvonandi nefndarmenn og tilkynnt tillögurnar til ráðuneytis. Stjórn RSÍ er ekki kunnugt um hverjir eru tilnefndir í úthlutunarnefnd. Stjórn er heldur ekki kunnugt um hverjir sátu í uppstillingarnefndinni. Sú nefnd er til komin með því að starfsmenn skrifstofu RSÍ lögðu fram nafnalista og stjórnarmenn lögðu fleiri nöfn í pott. Framkvæmdastjóri RSÍ fór með langan lista að vinna úr og að lokum fundust þrír viljugir til að setjast í uppstillingarnefnd og gera tillögur um tilnefningar í úthlutunarnefnd. Hafi menn svo einhverjar spurningar um þetta verkferli þá er það framkvæmdastjóri RSÍ sem svarar varðandi þann hluta sem snýr að Rithöfundasambandinu. Að öðru leyti er og verður úthlutunarnefnd alfarið á vegum og á ábyrgð Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stjórnar listamannalauna.

Nýr verkefnisstjóri félagsins, Tinna Ásgeirsdóttir kynnti á aðalfundi Höfundasjóð RSÍ sem er í mótun.  Og Gunnarshús er lífleg starfsstöð. Fjórir höfundar starfa nú í vinnustofum hússins og Sögufélagið hefur tekið skrifstofu á jarðhæð hússins á leigu og mun einnig hafa aðgang að funda- og samkomurými hússins.

Á aðalfundinum var samþykkt með lagabreytingu að halda framhalds aðalfund með haustinu og efna til kosninga í varastjórn félagsins.

Þrír menn gengu úr stjórn, þeir Jón Kalman Stefánsson sem gegndi embætti varaformanns, Gauti Kristmannsson varamaður og Andri Snær Magnason meðstjórnandi. Bjarni Bjarnason er nýkjörinn og sjálfkjörinn og fer inn sem meðstjórnandi og Sigurlín Bjarney Gísladóttir fer inn í aðalstjórn. Þar með er komin upp sú staða að það vantar tvo í varastjórn og því var samþykkt lagabreyting svo halda megi framhaldsfund í haust og fullmanna stjórn.

Vilborg Davíðsdóttir hefur tekið við varaformennsku, Hallgrímur Helgason er meðstjórnandi og Sigurlín Bjarney og Bjarni sömuleiðis.

Við bjóðum Bjarna Bjarnason hjartanlega velkominn í stjórn RSÍ og hlökkum til samstarfsins.

Fyrir hönd félagsmanna, stjórnar og skrifstofu RSÍ vil ég líka þakka Jóni Kalman, Gauta og Andra Snæ fyrir þeirra ómetanlegu sjálfboðavinnu í þágu félagsins. Stjórnarmenn eru alltaf boðnir og búnir að taka þátt í skipulagsvinnu, tala máli sambandsins í ræðu og riti og mæta á ótal fundi um ólíkustu málefni, allt í þágu fjöldans og félagsins. Það eru forréttindi að geta kallað til svo öfluga liðsmenn og verður seint full þakkað.

Félagsmenn munu fá aðalfundargerð ásamt skýrslu formanns á næstu dögum.

Bestu kveðjur,
Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email