Search
Close this search box.

Jæja … frá formanni!

Jæja …  góður félagsfundur er að baki um samningamálin.
Fundurinn var ætlaður til að bera saman bækur og taka niður ábendingar og tillögur. Ég fór í upphafi fundar yfir hinar margvíslegu samningsgerðir RSÍ. Hallgrímur Helgason sagði frá samningnum við útgefendur  og Gauti Kristmannsson fjallaði um  þýðingasamninginn og Sölvi Björn Sigurðsson kynnti könnun sína á kvikmyndarétti fyrir bókverk.
Samráðsfundur sem þessi er nauðsynlegur á hverju hausti , til að ræða kjaramálin, skoða landslagið og sóknarfærin. Við verðum að vera í góðu samtali svo stjórn fái skýr skilaboð og sterkt umboð til þess að þoka hlutum áfram.

1. Samningur höfunda við útgefendur. Það er skoðun stjórnar og ráðgefandi félagsmanna eftir að hafa skoðað málið að segja þessum samningum ekki upp að svo stöddu. En taka þá upp í vetur með viðsemjendum til að lagfæra og endurskoða eftirfarin atriði. Þar eru einkum fjögur atriði sem félagsmenn hafa verið ósáttir við:

a. Kiljuprósentin átján, en Hallgrímur gerði grein fyrir þeim í sínu erindi.

b. Ákvæði um skiptingu á fyrirframgreiðslum til höfunda sem fóru út við síðustu samninga og við viljum fá aftur inn á einhverju formi.

c. Rafbókaákvæði samninganna eru loðin, sérlega hvað varðar gildistíma. Við viljum skoða þessi ákvæði vel í ljósi þróunarinnar sem er hröð. Fram undan er málþing um rafbókina sem RSÍ stendur að ásamt öðrum og þar skýrast línur vonandi aðeins.

d. Staða höfunda við gjaldþrot forlaga. Nýlegt dæmi frá Uppheimum er nöturleg saga þar sem höfundar standa berskjaldaðir á meðan banki heldur útgáfunni gangandi til að fá upp í skuldir. Höfundar fara aftast í röðina og fá ekki greitt fyrir verk sín á meðan verið er að selja þau. Lögfræðingur RSÍ skoðar með okkur hvort hægt sé að innleiða í okkar samninga ákvæði sem verja okkar fólk við þessar aðstæður.

Þessi atriði viljum við fá viðsemjendur til að skoða með okkur fyrir áramót og við erum að setja saman afar öfluga nefnd félagsmanna til að ganga í viðræðurnar.

2. ÞÝÐINGASAMNINGUR er frá 21. des 2010 og endurnýjaði sig sjálfkrafa í desember í fyrra.  Við getum sagt þeim upp þegar við viljum, en verðum að vita nákvæmlega hvert við ætlum og hvar við ætlum að enda áður en það er gert. Við teljum mun vænlegra til árangurs að opna samninginn á sama hátt og við hyggjumst opna útgáfusamninginn og ræða þannig þá hluti sem betur mega fara. Í þýðingasamningum hefur flokkunarkerfið ekki virkað sem skyldi. Magneu Mattíasdóttur leiðir þetta skoðunarstarf í samvinnu við stjórn RSÍ.

Og það er nauðsynlegt að skoða landslagið í kringum okkur:

Við fórum á fund með kollegum okkar í Brussel í júní. Víða í Evrópulöndum eru menn ekki með útgáfusamninga og nærtækt dæmi er Svíþjóð, en þar eru höfundar samningslausir. Austurríkismenn voru að lenda samningi en þar eru engar prósentur og sömuleiðis Hollendingar, en þá dreymir um að fá prósentur inn í sína samninga þegar fram líða stundir. Það kom fram í framsöguerindum félaga okkar í Evrópu að algengt er að höfundar fái fimm til tíu prósent af verkum sínu og þó nokkuð um að nýir höfundar fái ekki greitt með öðru en væntingum um útgáfu á næstu bók. Og þetta vita okkar viðsemjendur hér á Íslandi.  Við teljum ekki fýsilegt að segja upp samningum nú, en að opna þá til að ræða einstaka ákvæði er afar nauðsynlegt og skyldi gerast reglulega því reynsla verður að komast á allt til að sjá hvort það gengur í raun.

3. RÚV SAMNINGAR verða væntanlega umfangsmestu viðræðurnar sem framundan eru í vetur . Nothæfir samningar við RÚV eru löngu tímabærir. Þeir eru tvíþættir- útvarp og sjónvarp. Viðsemjandi okkar er sammála um nauðsyn þess að gera nothæfa og virka samninga sem allra fyrst á milli RSÍ og RÚV og sammála um að núgildandi samningar okkar séu löngu úreltir. Við höfum verið með RÚV samningana í skoðun undanfarna mánuði og litið til samninga við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum. Þar stöndumst við alls ekki samanburð. Viðræður munu óhjákvæmilega taka mið af þeim samanburði. Samninganefnd er í burðarliðnum. Eftir samtal við útvarpsstjóra liggur fyrir að þessar viðræður geta hafist í október. Okkur hafa einnig borist margar þarfar og góðar ábendingar frá félagsmönnum varðandi greiðslur fyrir leikverk og flutning útgefins efnis í útvarpi og sjónvarpi, endurflutning á gömlu efni og varðandi framkvæmd við greiðslu til höfunda.

4. BÍÓRÉTTARSAMNINGUR.  Vinna við viðmiðunarplagg fyrir félagsmenn vegna sölu á kvikmyndarétti á bókverki hefur farið fram og Sölvi Björn Sigurðsson hefur haft veg og vanda að þeirri samantekt.  Við gerum ráð fyrir að geta lagt viðmiðunarplagg inn á síðuna hjá okkur fljótlega auk þess sem hægt verður að fá frekari upplýsingar á skrifstofunni, að venju.  Þessar upplýsingar er nauðsynlegt að hafa aðgengilegar svo höfundur viti hvernig hann á að taka fyrstu skref ef falast er eftir kvikmyndarétti og hvernig hann á að snúa sér í framhaldinu. Á félagsfundinum gerði Sölvi Björn grein fyrir sinni samantekt.

5. BÍÓHANDRITASAMNINGUR. Verið er að skoða kvikmyndasamninga fyrir frumsamið handrit. Til stendur að klára, með aðstoð lögfræðings félagsins, viðmiðunarsamning vegna kvikmyndahandrits og verður hann aðgengilegur á heimasíðunni. Við leggjum mikla áherslu á að kvikmyndasamningarnir séu skýrir, einfaldir og aðgengilegir  svo höfundar geti nýtt sér þá eða haft til hliðsjónar þegar þeir gera sína samninga við framleiðendur. Þessi vinna liggur sem stendur hjá reynslumiklu fólki í þessum efnum og stefnt er að því að samningurinn verði tilbúinn síðar í vetur.

6. LEIKHÚSSAMNINGAR: Leikhússamningarnir við stóru húsin hafa verið skoðaðir og það er álit allra að þeir séu góðir og þeir verða því ekki hreyfðir um sinn.

7. MENNTASTOFNUN eða Námsgagnastofnunin sáluga. Menntastofnun hefur tekið við kyndlinum og þar erum við í samráði við Hagþenki sem leiðir samninga við Menntastofnun líkt og við Námsgagnastofnun fyrr. Í vor komu til fundar við okkur og forsvarsmenn Hagþenkis fulltrúar frá vinnuhópi sem kannaði hvað betur má fara í samstarfi nýrrar Menntastofnunar við höfunda. Við bentum þar fyrst og fremst á samningsleysi sem hefur endað með einhliða plaggi frá Námsgagnastofnun til höfundar. Þetta vakti undrun á þessum vorfundi og okkur var heitið því að ný stofnun gangi hið allra fyrsta til samningaviðræðna svo gera megi nothæfa og tvíhliða samninga við höfunda. Að auki er brýnt að endurnýja endurbirtingarsamninginn okkar við nýja stofnun og Ragnheiður okkar er með það á sinni könnu.

Þá eru upptaldir okkar helstu samningar.

BÓKASAFNSSJÓÐUR: En við mæðumst í mörgu þegar kemur að kjaramálum höfunda. Þannig höfðu núverandi stjórnvöld tekið Bókasafnssjóð höfunda niður úr 45 milljónum í 23 milljónir og var staðan þannig fyrir rúmlega ári. Í fyrra náðist varnarsigur þegar okkur tókst með viðræðum, pexi og poti í menntamálaráðuneyti og meðal þingmanna, að koma þessum sjóði aftur upp í 45 milljónir. Við höfum haldið áfram viðræðum við ráðherra um Bókasafnssjóðinn og umhverfi hans og leggjum á það ofuráherslu að hann komist í ásættanlegt lagalegt umhverfi svo hann verði ekki háður geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna í framtíðinni og að ekki verði hægt að taka hann aftur fyrirvaralaust niður um helming. Ráðherra lofaði okkur í vor að vinna við lagafrumvarp um umhverfi Bókasafnssjóðs gæti farið fram í ráðuneytinu á þessu ári og jafnvel klárast á áramótum. Það er mikilvægt svo hægt verði að koma sjóðnum í stöðugri aðstæður.
Þetta var rætt á fundi með ráðherra í vor og svo bárust okkur þau gleðitíðindi í haust að sjóðurinn er í fjárlagafrumvarpi næsta árs 70 milljónir króna.
Bókasafnssjóðurinn er mjög mikilvægur. Hér er um að  ræða afnotagjöld . Langtímamarkmiðið er að sjóðurinn verði amk 300 milljónir miðað við núgildandi verðlag.

LAUNASJÓÐUR. Varðandi launasjóð rithöfunda þá er löngu orðið tímabært að auka í hann duglega. Það er gamalt markmið sem ekki hefur náðst í gegn ennþá. Þarna þarf að auka verulega í, ekki síst til að gæta að nýræktinni og taka vel á móti ungum höfundum sem ákveða að leggja skrifin fyrir sig. Við höfum farið fram á viðræður við menntamálaráðherra um launasjóð höfunda nú í haust. Við munum taka það samtal samhliða vinnunni við að koma Bókasafnssjóði í lagaumhverfi. Þarna verðum við þó að muna að við erum ekki eyland. Það er ekki hægt að bæta í launasjóð rithöfunda án þess að skoða samtímis alla listamannasjóðina. Við erum afar meðvituð um mikilvægi þess að eiga samtalið um launasjóð höfunda beint við ráðherra og viljum reka okkar málflutning á menningarlegum forsendum og leggjum áherslu á sérstöðu okkar, tungumál, bókmenntir, læsi og þjóðararf.
Mikilvægt er að vera í reglubundnu samtali við viðsemjendur okkar , halda góðu og stöðugu sambandi við yfirvald menntamála því með samtalinu vinnum við litlar orrustur og þokum málum í rétta átt.

Margar góðar tillögur voru lagðar fram á félagsfundinum, kraftmikið nesti fyrir viðræður framundan og fyrir það landslag sem til stendur að hanna áður en sest verður niður með viðsemjendum.

bestu kveðjur
Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email