Jæja, kæru félagar,
áfram miðar allt til góðs og öflugur félagsfundur að baki. Takk fyrir hann og fyrir stuðning og samstöðu. Fyrir fundinum lá að taka afstöðu til tillagna frá starfshópi á vegum BÍL og var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt:
Gunnarshúsi, 31. mars, 2016.
Félagsfundur Rithöfundasambands Íslands samþykkir að fara að tillögum starfshóps BÍL varðandi tilnefningar í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Stjórn RSÍ skal velja uppstillingarnefnd samkvæmt tillögum starfshóps BÍL. Uppstillingarnefndinni er svo falið að tilnefna einstaklinga í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda.
Með þessum breytingum eiga tilnefningar til úthlutunarnefnda að vera hafnar yfir vafann. Á fundinum ræddum við um það fjölmiðlafárviðri sem árlega skellur á vegna starfslauna til listamanna og þá sérstaklega hvernig rithöfundar verða fyrir heiftúðugum árásum, umfram aðra listamenn. Fundarmenn voru sammála um að seint yrði breyting á því, en þó væri orðið brýnt að leggja í upplýsingaferð, miðla og fræða um ritlistina, gildi og vægi í menningarsamfélagi sem glímir við að viðhalda einu af smæstu tungumálum veraldar. Sú upplýsingaveita er langhlaup sem leggjum í með okkar helstu samstarfsaðilum úr bókmenntaheiminum og það starf er þegar hafið. Upplýsing og samtal er enda eina leiðin til að efla menningarvitund fólks. Fundurinn hvatti til þess að RSÍ beiti sér áfram fyrir því að fjölga starfslaunum því ljóst megi vera af umræðunni á liðnum vetri að launasjóður rithöfunda sé alltof lítill og löngu orðið tímabært að stækka hann og bæta við nýliðalaunum. Enn og aftur, takk fyrir fína fundinn. Samtalið eflir og brýnir mannskapinn.
Og það er í mörg horn að líta í Gunnarshúsi. Samningaviðræður við RÚV eru í farvatninu og má búast við tíðindum af þeim vettvangi með haustinu. Vinnustofur Gunnarshúss eru nú fullmannaðar og fyrir kemur að höfundar sitji hér við skriftir fram á nætur. Norðurstofan, sem áður var bílskúr hússins, er nú komin í langtímaleigu. Sögufélagið hefur tekið rýmið á leigu og flytur inn nú um mánaðamót með sína starfssemi. Aðalfundur RSÍ er handan við hornið, þann 28. apríl, og ég hvet alla til að mæta, nota tækifærið til að hitta kollegana og ræða málin.
Bestu kveðjur,
Kristín Helga