Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 28. janúar. Verðlaunin skiptust í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðirit og bækur almenns efnis:
Jón Viðar Jónsson: Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965. Útgefandi: Skrudda.

Barna- og ungmennabækur:
Bergrún Íris Sævarsdóttir: Langelstur að eilífu. Útgefandi: Bókabeitan.

Fagurbókmenntir:
Sölvi Björn Sigurðsson: Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis. Útgefandi: Sögur útgáfa.

Verðlaunahafarnir Bergrún Íris og Sölvi Björn ásamt Steingrími Steinþórssyni útgefanda f.h. Jóns Viðars og Jónasi Sigurðssyni tónlistarmanni.

Forseti Íslands setti samkomuna sem sjónvarpað var í beinni útsendingu á RUV. Því næst flutti Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu. Forseti Íslands kynnti niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu gesti.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email