Ísak Harðarson látinn

Isak Hardarson

Ísak Harðarson skáld lést á Landspítalanum föstudaginn 12. maí eftir stutt veikindi. Ísak fæddist í Reykjavík þann 11. ágúst árið 1956. Hann lauk stúdentsprófi 1977 og stundaði síðan nám við Kennaraháskóla Íslands auk íslenskunáms við Háskóla Íslands. Ísak sendi frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Þriggja orða nafn árið 1982 og síðan hefur hann gefið út fjölda ljóðabóka, smásagnasöfn, skáldsögu og endurminningabók. Ljóð hans komu út í safnritinu Ský fyrir ský árið 2000 og ljóð birtust einnig í erlendum tímaritum og sýnisbókum. Ísak samdi söngtexta, auk þess sem ljóð hans hafa verið notuð til tónlistarflutnings. Þá þýddi hann bækur eftir erlenda höfunda á íslensku, meðal annars skáldsöguna Taumhald á skepnum eftir breska höfundinn Magnus Mills. Ísak hlaut Rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1994 og hann var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011 fyrir bók sína Rennur upp um nótt.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Ísaki samfylgdina og vottar fjölskyldu og vinum hans samúð.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email