Innanfélagskrónika

Haustið hlaut að koma fyrr eða síðar og hér í Gunnarshúsi boðar það miklar annir eins og víðar. En það hefur líka fært með sér góðar fréttir, sem staðfesta að barátta okkar fyrir bættum kjörum ber árangur þó að oft miði hægt.

Ég hef áður velt vöngum yfir nýlegum lögum um skattabreytingar á afnotagreiðslum hugverka.  Lögin heita réttu nafni Breyting á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og ná m.a. yfir skattlagningu á tekjum af höfundaréttindum. Vissulega vekja þessi lög nokkrar spurningar, því sitthvað er óljóst í þeim eins og gjarnan gerist og enn á eftir að afgreiða reglugerð sem væntanlega tekur af tvímæli um hvernig beri að túlka þau. Stjórn RSÍ og starfsfólk hafði nokkur afskipti af þessu máli á meðan það var til umfjöllunar í þinginu og okkur sýnist að athugasemdir og ábendingar um sérstöðu rithöfunda á meðal listamanna hafi skilað sér inn í lögin. Við lítum svo á að allar afleiddar tekjur af verki sem gefið hefur verið út einu sinni eigi að skattleggjast eins og fjármagnstekjur. Með öðrum orðum sé hugverk sambærilegt við fasteign, sem geti skilað arði og sá arður eigi að skilgreinast sem fjármagnstekjur og bera skatt sem slíkur. Samkvæmt þessum skilningi eiga skattar að lækka á greiðslur úr bókasafnssjóði og IHM sjóði, en einnig teljum við að lögin nái yfir sölu á kvikmyndarétti, rétti til leikgerðar, greiðslur fyrir verk sem koma út í erlendum þýðingum, hljóðbókarétt, tekjur vegna flutnings verks í útvarpi og fleira. Reynist þessi skilningur okkar réttur er um að ræða umtalsverða kjarabót fyrir íslenska rithöfunda.

Á dögunum voru síðan boðuð stóraukin framlög í Bókasafnssjóð höfunda í fjárlögum fyrir árið 2020, en það er eitt af þeim mikilvægu hagsmunamálum sem RSÍ beitir sér fyrir jafnt og þétt. Hækkunin er hvorki meira né minna en 62 prósent, sem þýðir að sjóðurinn vex úr 76,4 milljónum í 124,9 milljónir á milli ára. Þessi upphæð kemur til úthlutunar næsta vor fyrir útlán ársins 2019. Það er full ástæða til að gleðjast innilega yfir þessum tíðindum.

Af vettvangi kjarasamninga er það helst að frétta að samningar við Félag íslenskra bókaútgefenda eru farnar af stað og stefnt er að því að þær verði í höfn áður en árið er úti. Eins og ég hef áður minnst á gerum við þær kröfur fyrst og fremst að stuðningur íslenska ríkisins við útgáfu bóka á íslenskri tungu skili sér til þeirra sem bækurnar skrifa og verður það rauður þráður í samningaviðræðum okkar við útgefendur, en auk þess er eitt og annað í gildandi samningum sem þarf að leiðrétta. Fulltrúar RSÍ í samninganefnd eru Auður Jónsdóttir, Vilborg Davíðsdóttir og Dagur Hjartarson.

Einnig eru ákveðin teikn á lofti um að samningaviðræður við Ríkisútvarpið ohf. fari að lifna á ný, en þær lognuðust út af fyrir u.þ.b. tveimur árum, þegar svo virtist sem áhugi RÚV á að semja við höfunda hefði fengið hægt andlát. RSÍ hefur æ ofan í æ reynt að ýta þessum samskiptum aftur í gang, en án teljandi árangurs, þar til nú fyrir skömmu, og nú lítur loks út fyrir að hægt verði að blása lífi í samningaviðræður á ný. Við vonumst til að til tíðinda dragi í náinni framtíð.

Við minnum svo alla félagsmenn á að í Gunnarshúsi starfar fólk sem ætíð er boðið og búið til að rétta rithöfundum hjálpandi hönd, gefa góð ráð eða bara rabba yfir kaffibolla. Húsið er félagsheimili okkar allra og við hvetjum félagsmenn í RSÍ að nota sér aðstöðuna.

Bestu kveðjur úr Gunnarshúsi

Karl Ágúst

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email