Search
Close this search box.

Innanfélagskrónika

Kæru félagar.

Eins og gjarnan gerist á þessum árstíma er Gunnarshús þessar vikurnar vettvangur höfundakvölda, þar sem lesið er úr nýjum verkum og fólk hópast að til að hlýða á og blanda geði. Þessi siður er orðinn ómissandi þáttur í félagslífi rithöfunda og einnig dýrmæt viðbót við þau hátíðahöld sem útkoma nýrrar bókar kallar jafnan á. Í ár eru enn fleiri kvöld bókuð í húsinu en hingað til og auðvitað er það mikið fagnaðarefni að höfundar skuli nýta sér félagsheimili sitt í jafnmiklum mæli og raun ber vitni, ekki aðeins til fundahalda, heldur líka til að gleðjast og samfagna.

Á þessu hausti voru haldin tvö opin námskeið fyrir félgasmenn RSÍ og aðra áhugasama. Brynja Baldursdóttir stýrði námskeiði fyrir þá sem hugðust sækja um starfslaun. Farið var yfir vinnulag við umsóknir, hvað bæri að varast í því ferli og hvað væri vænlegra til árangurs. Brynja gat miðlað af innanbúðarreynslu, þar sem hún sat í úthlutunarnefnd í þrjú ár. Inga Jóna Óskarsdóttir viðurkenndur bókari hélt síðan námskeið um bókhald og skattamál einyrkja. Bæði námskeiðin þóttu mjög áhugaverð og sérlega gagnleg og þátttaka var nokkuð. RSÍ hefur hug á að standa fyrir fleiri námskeiðum á nýju ári og eru allar hugmyndir vel þegnar.

Eins og flestir vita liggur nú fyrir alþingi frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Með tilkomu þessa frumvarps var það gert opinbert að fyrirheit núverandi stjórnarflokka um að fella niður virðisaukaskatt af bókum yrðu ekki efnd. Þetta voru auðvitað gríðarleg vonbrigði, svo gripið sé til staðlaðs orðalags. Í beinu framhaldi sat stjórn RSÍ fund með menntamálaráðherra og starfsfólki ráðuneytisins þar sem farið var yfir helstu atriði frumvarpsins. Um er að ræða hugmyndir um að endurgreiða bókaútgefendum hluta af útgáfukostnaði og á fundinum kom fram að höfundagreiðslur féllu undir þann kostnað. Þessar endurgreiðslur eiga því að skila sér til höfunda. En betur má ef duga skal. Eitt og annað í þessu frumvarpi þarf að breytast og annað þarf að skýrast til þess að tryggt sé að hagur höfunda sé tryggður og að kjarabætur þeirra verði ekki minni en orðið hefði með niðurfellingu bókaskatts. Stjórn RSÍ situr þessa dagana yfir lagafrumvarpinu og mun skila umfangsmiklum athugasemdum til menntamálaráðuneytisins fyrir 15. nóvember. Rétt er líka að benda á að öllum er heimilt að senda inn athugasemdir og ég vil hvetja félagsmenn til að koma á framfæri öllum þeim ábendingum sem þeim þykkja nauðsynlegar. Hlekkur á frumvarpið fylgir hér:

https://www.althingi.is/altext/149/s/0178.html?fbclid=IwAR0G6onQlonIdpwxBP_0XEyOsCq0DjXZYn3JgdVW7RtPK8CeFyFnSWKX45E

En fleira þarf að segja um kjaramál og lífskjör rithöfunda á Íslandi. Stjórn RSÍ kallaði menntamálaráðherra á sinn fund til að kynna niðurstöður úr nýlegri kjarakönnun sem sambandið stóð fyrir. Á fundinum fórum við yfir nokkrar sláandi staðreyndir sem könnunin leiddi í ljós. Þeim sem ekki hafa séð þessar upplýsingar áður eða reynt þessi kjör á eigin skinni bregður yfirleitt illa í brún þegar þær eru kynntar. Svo var einnig í þetta skipti. Ráðherrann var okkur sammála um að margt yrði að breytast ef kjör rithöfunda ættu að verða mannsæmandi. Nú er að komast á samstarf á milli RSÍ og ráðuneytisins sem á að fleyta þessum málum fram á við. Við eygjum von um að einhver árangur sé í augsýn.

Og hvað viljum við að breytist til þess að rithöfundar geti sinnt hlutverki sínu í samfélaginu og lifað af vinnu sinni? Það er auðvitað fjölmargt, en hér eru veigamikil atriði:

1. Starf rithöfunda þarf að skilgreina sem fullt starf en ekki hlutastarf. Starfslaun þurfa að hækka í samræmi við það.
2. Rithöfundum á starfslaunum þarf að fjölga verulega.
3. Tryggja þarf samfellu í starfi höfunda með því að fleiri höfundar séu á launum alla mánuði ársins.
4. Bókasafnssjóður þarf að eflast til mikilla muna.
5. Endurgreiðslur á útgáfukostnaði til bókaútgefenda mega ekki verða til þess að heildsöluverð bóka lækki, þar sem það mun skerða hlut höfunda.
6. Öllum þarf að vera ljóst að rithöfundar á miðjum aldri með stórt höfundaverk eru EKKI búnir að koma sér vel fyrir fjárhagslega. Skert starfslaun höfunda sem verið hafa á árslaunum lengst af starfsferli sínum þýða einfaldlega að þeir geti ekki lengur lifað af höfundastarfinu. Hvaða starf á almennum vinnumarkaði stendur sextugum rithöfundum til boða? Og er það gróði fyrir íslenskt samfélag að gera höfundum ókleift að skrifa eftir að sextugsaldri er náð? Við þurfum að finna leið til að „tappa af“ launasjóði en gera um leið höfundum með gríðarlegt ævistarf að baki kleift að halda áfram og skila jafnvel enn meiri menningarverðmætum til samfélagsins.

Bestu kveðjur úr Gunnarshúsi.

Karl Ágúst

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email