Ingibjörg Kristín Þorbergs, tónskáld, rithöfundur, söngkona og fyrrverandi dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, er látin 91 árs að aldri.
Ingibjörg stundaði meðal annars nám við Tónlistarskóla Reykjavíkur og Kennaraskóla Íslands og dvaldi enn fremur við nám í Dante Alighieri-skólanum í Róm. Hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu 1946 og starfaði þar við ýmis störf til 1985. Hún starfaði einnig við kennslu um tíma og sem blaðamaður.
Ingibjörg samdi sönglög, dægurlög og barnalög, söng inn á fjölda hljómplatna og samdi sjö leikrit fyrir börn og unglinga. Hún fékk margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003. Þá hlaut hún riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 2008 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Ingibjörgu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.