Huldar Breiðfjörð gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist 2017–18

huldar_breidfjord

Huldar Breiðfjörð gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Hugvísindasvið Háskóla Íslands veturinn 2017–18. Huldar mun vinna að kvikmyndahandritsgerð með meistaranemum í ritlist.

Stofnað var til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist árið 2015 með það fyrir augum að gera íslenskum rithöfundum kleift að starfa með ritlistarnemum. Áður hafa þau Sigurður Pálsson, Vilborg Davíðsdóttir og Hlín Agnarsdóttir gegnt starfinu.

Huldar er fæddur í Reykjavík árið 1972. Hann nam almenna bókmenntafræði við Háskóla Íslands og kvikmyndagerð og leikstjórn við The New York University Tisch School of the Arts. Huldar er þekktur jafnt sem rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann sló í gegn árið 1998 með bókinni Góðir Íslendingar sem var tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Þeirri bók fylgdi hann eftir með ferðabókunum Múrinn í Kína (2004) og Færeyskur dansur (2012). Huldar hefur einnig skrifað leikrit og handrit að nokkrum kvikmyndum. Þar má nefna París norðursins og hina geysivinsælu kvikmynd Undir trénu sem hann skrifaði ásamt Hafsteini Gunnari Sigurðssyni.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email