Höfundakvöldin 2014

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Hallgrímur Helgason: 

Höfundakvöldin 2014

Höfundakvöldin í Gunnarshúsi á haustmánuðum 2014 voru tilraun til að gefa nýjum bókum meira pláss og lyfta jólabókavertíðinni á ögn hærra plan. Hingað til hefur íslenska aðferðin verið sú að hrúga höfundum saman á upplestrarkvöld þar sem hver bók fær 10 mínútur í upplestri en enginn tími gefst til að spjalla eða kafa dýpra í verkin. Erlendis tíðkast fremur að fjallað sé um eitt og eitt verk í einu, og höfundurinn spurður út í það af stjórnanda sem lesið hefur bókina. Hér var sama leið farin; hverju höfundakvöldi stjórnaði nýr spyrjandi.

Höfundakvöldin voru á hverju fimmtudagskvöldi frá því í lok október og fram yfir miðjan desember og var hvert þeirra helgað tveimur höfundum og nýjum bókum þeirra. Alls voru kvöldin tíu talsins og því voru bækur 20 höfunda kynntar á þessum vettvangi, af tíu stjórnendum. Verkin voru valin af Húsráði og valið takmarkað við bækur sem komu út hjá forlögum á haustvertíð, skáldsögur jafnt sem ljóð og barna- og unglingabækur. Flestir höfundanna sem haft var samband við þáðu boðið. Tilraun þessi þóttist heppnast vel og verður vonandi framhald á haustið 2015. Aðsókn var misjöfn frá en nokkrum sinnum varð húsfyllir, setið á 70 stólum, í stigaþrepum og staðið með veggjum þannig að mikil stemmning skapaðist.

Til að hægt væri að bjóða upp á veitingar í hléi var farin sú leið að láta kosta 500 kr. inn. Mæltist þetta ágætlega fyrir og engar kvartanir heyrðust um þetta fyrirkomulag. Fyrir vikið komu kvöldin út á sléttu. Velta má því fyrir sér hvort hækka ætti aðgangseyrinn í 1000 krónur fyrir næsta haust, og þannig gæti tekist að greiða spyrlum og höfundum fyrir sitt framlag.

Nokkur kvöldanna voru hljóðrituð fyrir Útvarp. Jórunn Sigurðardóttir frá Rás eitt mætti með míkrófón og sendi efnið út í þætti sínum Orð um bækur. Flest kvöldin voru einnig tekin upp á myndband. Það var Halldór Árni Sveinsson frá vefmiðlinum netsamfelag.is sem var svo elskulegur að gera það endurgjaldslaust. Enn á hinsvegar eftir að hlaða mesta efninu inn á netið, en á slóðinni http://netsamfelag.is/index.php/bein-utsendin/menning-og-listir/bokmenntir má þó sjá helminginn af tveimur kvöldum.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 30. október, 2014: fullt út úr dyrum.
Höfundakvöld í Gunnarshúsi 30. október, 2014: fullt út úr dyrum.
Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email