Í tilefni af útkomu bókarinnar Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960 eftir Hauk Ingvarsson verður haldin útgáfufögnuður og höfundaspjall kl. 20, miðvikudaginn 3. nóvember.
Haukur ræðir bókina og myndefni hennar og situr fyrir svörum. Einar Kári Jóhannsson stjórnar umræðum.
Viðburðurinn er öllum opin og boðið er upp á léttar veitingar í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8, 104 Reykjavík. Þar tók rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson á móti kollega sínum William Faulkner í október 1955, eins og fjallað er um í bókinni.
Um bókina:
Haustið 1955 sótti bandaríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner Íslendinga heim. Kalda stríðið var í algleymingi og íslenska þjóðin klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Faulkner var eindreginn talsmaður stórveldisins í vestri en fangaði hugi og hjörtu Íslendinga þvert á flokkslínur, sósíalistar lýstu honum sem fulltrúa þess besta í bandarískri menningu.
En hver var þessi Faulkner? Og hvernig stóð á vinsældum hans?
Í bókinni er fjallað um landnám módernismans í íslenskum bókmenntum og bandarísku bylgjuna sem reið yfir bókmenntaheiminn á fjórða áratug 20. aldar. Brugðið er nýju og óvæntu ljósi á þátttöku íslenskra hægrimanna í alþjóðlegu menningarstarfi í kalda stríðinu en á bak við tjöldin hélt bandaríska leyniþjónustan um þræði. Við sögu koma Hollywood-kvikmyndir byggðar á verkum Faulkners, erindrekar Bandaríkjastjórnar á Íslandi, aftökur án dóms og laga í Suðurríkjum Bandaríkjanna og íslenskur rithöfundur sem skrifaði skáldsagnaþríleik, innblásinn af Faulkner.
Hér er á ferðinni nýstárleg rannsókn sem byggir á fjölbreyttum heimildum, þar á meðal gögnum af innlendum og erlendum skjalasöfnum. Bókin á erindi til alls áhugafólks um bókmenntir og sögu.
Haukur Ingvarsson er doktor í bókmenntafræði og rithöfundur. Hann er höfundur bókarinnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness. Árið 2018 hlaut Haukur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína Vistarverur.