Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi

1hofundakvold

Húsráð Gunnarshúss stendur nú í annað sinn fyrir vikulegum höfundakvöldum í Gunnarshúsi í aðdraganda jóla. Höfundakvöldin verða alls átta og standa fram í desemberbyrjun. Á hverju fimmtudagskvöldi mæta tveir til þrír höfundar nýrra bóka, spjalla um bækur sínar og lesa úr þeim, og síðan gefst áhorfendum kostur á að spyrja líka.

Fimmtudaginn 15. október kl. 20.00 ríða þrjú ljóðskáld á vaðið, þau Bubbi Morthens, Linda Vilhjálmsdóttir og Óskar Árni Óskarsson. Bubbi Morthens hefur lengi verið með vinsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar en gefur um þessar mundir út sína fyrstu ljóðabók, Öskraðu gat á myrkrið. Linda Vilhjálmsdóttir sendir frá sér sína sjöttu ljóðabók, Frelsi, en auk ljóða hefur hún skrifað sjálfsævisögulega skáldsögu sem vakti mikla athygli, Lygasögu. Óskar Árni Óskarsson gefur út Blýengilinn, sína þrettándu ljóðabók, en hann hefur einnig skrifað prósa og þýtt bæði ljóð og smásögur. Bubbi, Linda og Óskar Árni munu lesa upp úr bókum sínum og svara spurningum Hauks Ingvarssonar um þær.

Gunnarshús, hús Rithöfundasambands Íslands, er staðsett á Dyngjuvegi 8. Aðgangseyrir er 1000 krónur, veitingar innifaldar. Allir velkomnir á meðan stólar leyfa.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email