Næstkomandi fimmtudagskvöld, 26. nóvember, kl. 20.00, fer sjöunda höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Kristján Guðjónsson spjalla við þau Mikael Torfason og Auði Jónsdóttur, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum: Týnd í Paradís og Stóra skjálfta. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.
Týnd í Paradís er sjötta skáldsaga Mikaels Torfasonar, en í henni segir hann sögu sína, foreldra sinna og forfeðra. Við sögu koma guð, djöfullinn og Vottar Jehóva. Ennfremur hippar, læknar, sjómenn, bændur, húsmæður, drykkjumenn, reykingafólk og börn. Mikael hefur þá einnig unnið sem blaðamaður og skrifað leikrit og handrit að kvikmyndum.
Auður Jónsdóttir sendir nú frá sér sína sjöunda skáldsögu, Stóra skjálfta. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og þá einnig starfað sem sjálfstætt starfandi blaðamaður. Sagan Stóri skjálfti rekur sögu Sögu sem rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Upp vakna ýmsar spurningar varðandi traust, samskipti og sjálfsþekkingu. Skáldsögur Auðar Jónsdóttur hafa vakið athygli hér heima og erlendis fyrir fágæta blöndu af nístandi einlægni og húmor.
Spyrill kvöldsins er Kristján Guðjónsson, en hann hefur starfað sem blaðamaður á síðustu árum, nú síðast sem menningarritstjóri DV.