Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Kristrún Guðmundsdóttir

passamynd
Kristrún Guðmundsdóttir

Kristrún Guðmundsdóttir ljóðskáld veltir fyrir sér í flæðiskenndu samtali ljóðs, radda og hljóma, tilurð nýrrar ljóðabókar í tengslum við sköpunarferlið.  Áheyrendur fá innsýn í vinnubrögð Kristrúnar og hugmyndir hennar um ferli sköpunar sem hún álítur vera sjálft málið. Ljóðabók Kristrúnar Eldmóður- neðanmálsgreinar við óskrifuð ljóð lítur dagsins ljós þessa dagana. Eldmóður … er í raun ekkert annað en neðanmálsgreinar að verki sem enn hefur ekki verið skrifað og snýr þannig veru sinni á hvolf og öllu því sem í vændum er.  Anna Dóra Antonsdóttir rithöfundur mun þræða ferlið saman af festu og loks les Kristrún upp við undirleik hljóðfæraleikaranna Ólafs B. Sigurðssonar og Sigurðar B. Ólafssonar og flæðiljóðhljómur mun að öllum líkindum streyma fram.

Eldmóður – neðanmálsgreinar við óskrifuð ljóð er 6. ljóðabók Kristrúnar en auk þess hefur hún sent frá sér tvær skáldsögur. Árið 2012 tók hún þátt í höfundasmiðju Þjóðleikhúss og félags íslenskra leikskálda þar sem  Kristrún vann að verki sínu Englatrompeti . Norski rithöfundurinn og leikskáldið Torunn Ystaas hefur sýnt því verki áhuga með þýðingu í huga.

Dagskráin hefst klukkan 20:00 þann 1. desember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8.

Léttar veitingar verða í boði og bókin sjálf á tilboðsverði.