Höfundakvöld í Gunnarshúsi haustið 2018

Gunnarshus2
Gunnarshús

Líkt og undanfarin ár verða höfundakvöld í Gunnarshúsi í október og fram í byrjun desember. Kvöldin eru með ýmsu sniði enda sníða þátttakendur þau eftir sínu höfði. Hver viðburður verður auglýstur sérstaklega þegar nær dregur en hér er birt dagskrá kvöldanna, með fyrirvara um breytingar.

Fimmtudaginn 18. október, kl. 20.00  – Júlía Margrét – Einar – Linda – Börkur
Júlía Margrét Einarsdóttir
les úr skáldsögunni sinni Drottningin á Júpíter, Einar Kárason les úr bók sinni Stormfuglar, Linda Vilhjálmsdóttir les úr nýrri ljóðabók Smáa letrið og Börkur Gunnarsson les úr þríleik sínum Þau – þrjár nóvellur í einni bók, Hann, Hún og Þeir.


Fimmtudaginn 25. október, kl. 20.00
Rithöfundarnir Matthías Johannessen, Halldóra Thoroddsen og Bjarni Harðarson lesa úr nýjum bókum sínum og sitja í pallborði á eftir og svara spurningum um verk sín. Umræðustjórar eru Mörður Árnason málfræðingur og Harpa Rún Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur.
Matthías Johannessen sendi nú í haust frá sér ljóðabókina Enn logar jökull, Halldóra Thoroddsen er með skáldsöguna Katrínarsögu og Bjarni Harðarson sögulega skáldsögu sem heitir Í Gullhreppum.


Fimmtudagur 1. nóvember kl. 20.00 – Guðrún – Páll – Sigurður Hreiðar – Bergrún Íris
Guðrún S. Guðlaugsdóttir kynnir sakamálasöguna Erfðaskráin.
Páll Benediktsson kynnir nýja bók sem hann kallar: Ævisögu hunds: Kópur – Mjási, Birna og ég. Sigurður Hreiðar mun kynna nýja bók sem inniheldur minningabrot og heitir: Meðan ég man.
Bergrún Íris Sævarsdóttir kynnir bók sína Langelstur í leynifélaginu – sem er bók fyrir ungviðið. Höfundarnir fjórir koma allir úr blaðamannastétt.


Fimmtudaginn 8. nóvember kl. 20.00 – Guðmundur – Harpa Rún – Kristinn R.
Guðmundur Brynjólfsson les úr bók sinni Eitraða barnið sem er sakamálasaga þar sem sögusviðið er Eyrarbakki um aldamótin 1900. Harpa Rún Kristjánsdóttir les úr bókinni Þingvellir, í og úr sjónmáli þar sem hún teflir fram skáldlegri sýn á söguna og þennan forna helgistað. Þá les Kristinn R. Ólafsson úr þýðingu sinni á Soralega Havanaþríleiknum eftir Pedro Juan Gutiérrez, en í bókinni segir frá lífi Kúbverja laust eftir fall Sovétríkjanna. Eftir upplestur sitja lesarar í pallborði undir stjórn þeirra Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur og Gunnlaugs Bjarnasonar.


Þriðjudagur 13. nóvember kl. 20.00 – „Um ýmsar trissur aðrar …“

Fjórir höfundar ljúka stormasamri upplestrarferð um Dali og Strandir með lestri úr nýjum bókum sínum í Gunnarshúsi. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Auður Ava Ólafsdóttir: Ungfrú Ísland, skáldsaga
Bergsveinn Birgisson: Lifandilífslækur, skáldsaga
Bjarni Bjarnason: Læknishúsið, skáldsaga
Sigurbjörg Þrastardóttir: Hryggdýr, ljóðabók

Leynispyrill fleygir fáeinum spurningum fyrir höfundana, en aðallega verður lesið úr bókunum fjórum og spjallað við gesti yfir kaffi úr könnum hússins.


Fimmtudaginn 22. nóvember – Sögufélagið
Kynning á nýútkomnum bókum Sögufélagsins.


Fimmtudagur 29. nóvember
Nánari upplýsingar síðar.


Miðvikudagar 5. desember – Bergrún Íris – Sigga Dögg – Lilja Katrín
Bergrún Íris Sævarsdóttir
mun kynna Langelstur í leynifélaginu. Bókin segir frá sumarfríi vinanna Eyju (7 ára) og Rögnvaldi (97 ára). Bókin er framhald af Langelstur í bekknum sem sló í gegn á síðasta ári.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir mun kynna Minn sykursæti lífstíll. Minn sykursæti lífsstíll er fyrsta bók ástríðubakarans Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, konunnar á bak við sykursætu bloggsíðuna blaka.is. Bókin er stútfull af bakstursuppskriftum og góðum ráðum fyrir þá sem vilja leyfa ímyndunaraflinu og gleði að ráða ríkjum í eldhúsinu, með tilheyrandi sykursjokki og kolvetnavímu.
Sigga Dögg kynfræðingur kynnir sína fyrstu skáldsögu; kynVeru. Sagan er brot úr dagbók Veru, táningsstúlku sem stendur á ákveðnum tímamótum og reynir að átta sig á næstu skrefum með því að rekja ákveðna atburðarás. Í því ferðalagi veltir hún fyrir sér m.a. blæðingum, ástinni, jafnrétti, losta, kynhneigð, og líkamanum. Höfundur veitir dýrmæta, og einstaka, innsýn í hugarheim unglings út frá spurningum og umræðum sem koma upp í kynfræðslufyrirlestrum hennar um land allt. 


Fimmtudagur 6. desember –  Eygló og Eyrún
Mæðgurnar Eygló Jónsdóttir og Eyrún Ósk Jónsdóttir kynna nýútkomnar ljóðabækur sínar. Ljóðabókina Áttun eftir Eygló fjallar um ferðalög, bæði bókstafleg og huglæg. Bókin varð til á ferðalagi og í henni leyfir höfundur sér að kanna ókunnugt landslag og nýjar víddir í sjálfum sér. Ljóðabókin Í huganum ráðgeri morð eftir Eyrúnu fjallar svo um sköpunarkraftinn sem lifandi afl er öðlast sjálfstætt líf, heltekur listamanninn og brýst út þegar síst varir, gerir byltingu og uppreisn.


Fimmtudagur 13. desember  – Svarthol, tímaferðalög, draumur og nærbrækur.

Arndís Þórarinsdóttir mun kynna bókina Nærbuxnaverksmiðjan
Ævar Þór Benediktsson mun kynna bókina Þitt eigið tímaferðalag
Sævar Helgi Bragason mun kynna bókina Svarthol – Hvað gerist ef ég fell ofan í?
Hjalti Halldórsson mun kynna bókina Draumurinn.

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email