Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Borgþór Kjærnested og Þorgrímur Gestsson

 

Slide1

Miðvikudaginn 22. nóvember munu Borgþór Kjærnested og Þorgrímur Gestsson ræða nýjar bækur sína í Gunnarshúsi.

Borgþór Kjærnested sendir nú frá sér Milli steins og sleggju – saga Finnlands og Þorgrímur Gestsson sendir frá sér bókina Færeyjar út úr þokunni.

Íslendingar hafa löngum dáðst að herfengi og þrautseigju Finna við að verja frelsi sitt og sjálfstæði frammi fyrir ofurefli. Samt hefur okkur hingað til skort aðgengilegar heimildir um þá örlagaríku sögu á íslensku. Bók Borgþórs Kjærnested, Milli steins og sleggju – saga Finnlands, bætir því úr brýnni þörf. Í þeim skilningi er þetta brautryðjandaverk. „Það er síst ofmælt að saga Finna sé örlagarík. Frásögn Borgþórs af tvísýnni sjálfstæðisbaráttu finnsku þjóðarinnar á árum fyrri heimsstyrjaldar og ógæfu borgarastríðsins í kjölfarið, er lærdómsrík. Vetrarstríðið – þegar Finnar stóðu einir í heiminum frammi fyrir ofurefli Rauða hersins – og unnu varnarsigur – eina þjóðin í Evrópu, fyrir utan Breta, sem tókst að hrinda innrás kommúnista og nasista af höndum sér og varðveita sjálfstæði sitt. Þetta segir meira en mörg orð um skapstyrk og æðruleysi finnsku þjóðarinnar þegar á reyndi á ögurstund.“ Segir í bókarkynningu.

 Færeyjar út úr þokunni er þriðja bók Þorgríms Gestssonar um ferðir hans um slóðir fornsagna. Ferð um fornar sögur, sem kom út 2003, fjallar um ferð um slóðir Heimskringlu í Noregi, Í kjölfar jarla og konunga, sem kom út 2014, fjallar um ferðir hans um slóðir Orkneyingasögu í Orkneyjum og á Hjaltlandi.  Í nýjustu bókinni fer Þorgrímur um söguslóðir í Færeyjum, með Færeyingasögu í farteskinu, en sökum skyldleika Færeyinga og Íslendinga og þess hve stutt er á milli þessara eyja lætur hann ekki nægja að ferðast um fornsöguna heldur lagði í ferðalag um sögu Noregs og Norðurlanda frá þeim tíma þegar Færeyingasögu lýkur. Í síðasta hluta bókarinnar fer hann um menningar- og stjórnmálasögu Færeyja og léttir ekki ferðinni fyrr en í samtíma okkar, nánar tiltekið haustið 2015, þegar hann sigldi síðast með Norrænu frá Tórshavn, áleiðis til Seyðisfjarðar. Þorgrímur Gestsson var blaðamaður og fréttamaður með stuttum hléum frá árinu 1968 til 1995 en hefur frá þeim tíma stundað ritstörf á eigin vegum.

Miðvikudagur 22. nóv. kl. 20 í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email