Höfundakvöld: Einar Kárason og Einar Már

Einar Kárason og Einar Már Guðmundsson bjóða til höfundakvölds í Gunnarshúsi kl. 20:00 fimmtudaginn 20. nóvember og lesa úr nýútkomnum bókum sínum. Allir velkomnir!

Sjá dagar koma er ný bók eftir Einar Kárason um bjartsýna menn og hnípna þjóð við upphaf 20. aldar. Allslaus piltur úr Dýrafirði fær óvænt pláss á amerísku skipi og heldur af stað yfir höf og lönd, óvissuför sem leiðir hann loks á vit athafnaskáldsins Einars Ben. Fjörug saga um bjartsýni, stórhug og stolt frá afburðasnjöllum sagnamanni.

Allt frá hatti oní skó eftir Einar Má Guðmundsson dansar á mörkum minninga og skáldskapar. Haustið 1979 heldur Haraldur til Kaupmannahafnar í þeim tilgangi að verða skáld. Á vegi hans verða ótal skrautlegar persónur, ný viðhorf, skáldskapur og tónlist, allt umleikið órólegum anda níunda áratugarins þegar allt breyttist – og til varð nýtt skáld.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email