Search
Close this search box.

Heiðursfélagi Rithöfundasambandsins fallinn frá

Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri skáld og rithöfundur er látinn, 79 ára að aldri.  Hann lést að heimili sínu í Reykjavík að morgni sunnudagsins 28. janúar. Þorsteinn var heiðursfélagi Rithöfundasambandsins og sat í stjórn þess á árunum 1984 til 1988. Áður hafði hann setið í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1966 til 1968

Þorsteinn fæddist 15. mars 1938 að Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann lauk gagnfræðaprófi og landsprófi við Héraðsskólann í Reykholti 1954 og stundaði nám við Kennaraskóla Íslands 1955 til 1957.  Þorsteinn vann sem aðstoðarbókavörður á Bókasafni Kópavogs frá 1961 til ársins 1967 en eftir það fékkst hann við ritstörf, samhliða prófarkalestri, þýðingum og gerð útvarpsþátta.

Tvítugur að aldri gaf Þorsteinn út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli en alls urðu ljóðabækur hans 26 talsins. Þorsteinn skrifaði einnig skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja fjölmargar þýðingar.

Þorsteinn hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fimm sinnum: Árið 1972 fyrir Himinbjargarsögu eða Skógardraum, 1979 fyrir Fiðrið úr sæng Daladrottningar, 1984 fyrir Spjótalög á spegil, 1992 fyrir Vatns götur og blóðs og árið 2015 fyrir Skessukatla. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum árið 1981 fyrir skáldsöguna Haust í Skírisskógi, Stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar árið 1991, Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2004 og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2009.  Árið 1996 var honum veittur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf og Heiðurslaun Alþingis frá 2001.

Verk Þorsteins hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál, meðal annars þýsku, ensku, frönsku, ítölsku, dönsku, sænsku og kínversku, auk esperantó og annarra tungumála.

Rithöfundasambandið þakkar Þorsteini samfylgdina og dýrmæta leiðsögn og sendir fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email