Search
Close this search box.

Heiðursfélagi og fyrrverandi formaður Rithöfundasambands Íslands er fallinn frá

formenn 010
Sigurður Pálsson skáld er látinn eftir erfið veikindi, 69 ára að aldri. Sigurður var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands og formaður þess 1984 – 1988.

Sigurður fæddist á Skinnastað í Axarfirði 30. júlí 1948. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk þaðan maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Sigurður kenndi við Leiklistarskóla Íslands 1975–1978 en hefur síðustu ár sinnt kennslu við ritlistardeild Háskóla Íslands. Fyrsta ljóðabók Sigurðar, Ljóð vega salt, kom út árið 1975. Ljóðabókin Ljóð námu völd var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993, Sigurður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók árið 2007 og hafði þá áður verið tilnefndur fyrir ljóðabækurnar Ljóðlínuskip (1995) og Ljóðtímaleit (2001). Sigurður hefur einnig ritað skáldsögur og fengist við leikritasmíð, skrifað sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta. Sigurður var jafnframt afburða þýðandi og á síðasta ári kom út Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem Sigurður þýddi ásamt Sölva Birni Sigurðssyni og í byrjun árs 2018 er væntanleg önnur þýðing Sigurðar á verki eftir Nóbelsverðlaunahöfundinn Patrick Modiano, Dora Bruder.

Sigurður var borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987-1990, var veittur riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990, og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l’Ordre National du Mérite) árið 2007. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016. Í maí s.l. hlaut Sigurður, fyrstur manna, Maístjörnuna verðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd. Hún hefur nú verið þýdd á dönsku og norsku og er útgáfa í þeim löndum væntanleg. Úrval ljóða hans, Mit hus, kom út hjá danska bókaforlaginu Vandkunsten í vor og hefur það að geyma ljóð úr 15 bókum Sigurðar sem komu út á árunum 1975 til 2012 í þýðingu Erik Skyum Nielsen.

Við afhendingu Maistjörnunnar vorið 2017 flutti Sigurður eftirminnilega ræðu og sagði meðal annars: „Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna. … Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi. … En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra.“

Rithöfundasambandið þakkar Sigurði samfylgdina og dýrmæta leiðsögn og sendir fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email