Jenna Jensdóttir, rithöfundur og heiðursfélagi í Rithöfundasambandinu, lést á Hrafnistu í Reykjavík í gær. Jenna fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði. Jenna starfaði lengst af sem kennari við „Hreiðarsskóla“ á Akureyri og svo við Barnaskóla Akureyrar, Gagnfræðaskóla Akureyrar, Langholtsskóla, Barnaskóla Garðabæjar og Námsflokka Reykjavíkur. Hún var bókmenntagagnrýnandi, þátta- og greinahöfundur við Morgunblaðið í áratugi.
Eftir Jennu liggur á þriðja tug barna- og unglingabóka, þ. á m. Öddubækurnar sem hún skrifaði ásamt eiginmanni sínum Hreiðari Stefánssyni. Þar að auki sendi hún frá sér ljóðabók og tvö smásagnasöfn.
Rithöfundasambandið vottar afkomendum og aðstandendum Jennu samúð.