Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2021. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í sjötta sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag 18. maí.
Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2021 hlýtur Haukur Ingvarsson fyrir bókina:
Menn sem elska menn
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:
„Í Menn sem elska menn yrkir Haukur Ingvarsson um þunga kroppa og sviflétta anda, um þyngdarkraft alheimsins, kærleikann, sem leggur bönd á efnin og heldur sólum á brautu. Með snjöllu myndmáli skyggnist skáldið um heim allan frá myrku dýpi sjávar til óravídda himingeimsins en hugleiðingar um fótspor á örþunnri skurn yfir djúpinu vekur grun um yfirborð sem getur brostið hvenær sem er. Í ljóðunum birtist þéttur vefur tilvísana til íslenskra bókmennta gegnum aldirnar sem víkkar út merkingarsvið þeirra. Áleitnustu viðfangsefnin og markviss tákn bókarinnar varða ástina, vináttuna og karlmennskuna. Skáldið hvetur okkur til að kafa í ómælisdjúp orða og kennda og eiga stefnumót í anda. Menn sem elska menn er bók sem kallar á endurtekinn lestur og launar þeim sem sinna því kalli ríkulega.“
Haukur Ingvarsson er fæddur í Kaupmannahöfn 1979 og alinn upp í norðurbæ Hafnarfjarðar. Hann lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2020. Haukur starfaði sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1 frá árinu 2005, lengst af sem einn af umsjónarmönnum og ritstjórum Víðsjár. Um skeið hélt hann úti sínum eigin bókmenntaþætti Glætu en þar fyrir utan gerði hann fjölda þátta og þáttaraða um bókmenntir, menningu og listir.
Eftir Hauk hafa birst ljóð, smásögur og greinar í ýmsum tímaritum og sýnisbókum heima og erlendis. Hann hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur en fyrir aðra bók sína Vistarverur hlaut hann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018. Sú bók var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar það ár. Þá hefur hann skrifað eina skáldsögu, Nóvember 1976, og fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960. Haukur ritstýrir Skírni, tímariti hins íslenska bókmenntafélags, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur. Fyrr á þessu ári hlaut Haukur nýdoktorastyrk frá Háskóla Íslands til þriggja ára.
Haukur er kvæntur Steinunni Rut Guðmundsdóttur og saman eiga þau drengina Hrafnkel, Ragnar Úlf og Ingvar Flóka.
Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2021 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Soffía Auður Birgisdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Birgir Freyr Lúðvígsson fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.
Tilnefndar voru bækurnar:
Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur. Útgefandi: Una útgáfuhús
Menn sem elska menn eftir Hauk Ingvarsson. Útgefandi: Mál og menning
Klettur – Ljóð úr sprungum eftir Ólaf Svein Jóhannesson. Útgefandi: Bjartur
Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson. Útgefandi: Bjartur
Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur. Útgefandi Angústúra
Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur. Útgefandi: Mál og menning
Rithöfundasamband Íslands óskar Hauki innilega til hamingju með viðurkenninguna!