Search
Close this search box.

Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót

Skáldin Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir voru sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í dag.

Á vef Háskólans segir:
Hannes og Steinunn eru meðal okkar merkustu samtímahöfunda. Hannes er bæði ljóðskáld og fræðimaður. Hann kvaddi sér hljóðs með Kvæðabók árið 1955 og meðal annarra ljóðabóka á löngum og farsælum ferli Hannesar eru Stund og staðir (1962), Innlönd (1968), Heimkynni við sjó (1980), 36 ljóð (1983), Eldhylur (1993), Fyrir kvölddyrum (2006) og Haustaugu (2018). Náttúra og saga skipa mikilvægan sess í skáldskap Hannesar og honum hefur auðnast að samþætta hefð og nýjungar á skapandi hátt. Hannes lagði stund á germönsk fræði við háskólana í Köln og Heidelberg í Þýskalandi á árunum 1952–1954. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1959 og hefur getið sér gott orð sem fræðimaður á því sviði. Í rannsóknum sínum hefur hann einkum fengist við ljóðskáld 19. aldar. Ljóð Hannesar hafa verið þýdd á ýmis mál og hann hefur sjálfur snúið erlendum ljóðum og lausamáli á íslensku.

Steinunn er ljóðskáld og höfundur skáldsagna og leikverka og teljast mörg verk hennar til lykilbóka í íslenskum samtímaskáldskap, m.a. Tímaþjófurinn (1986), Ástin fiskanna (1993) og Sólskinshestur (2005). Hún er jafnframt eitt af þekktustu ljóðskáldum samtímans en meðal ljóðabóka hennar má nefna Kartöfluprinsessuna (1987), Hugástir (1999) og Dimmumót (2019) en í síðastnefndu bókinni fjallar Steinunn um veruleika loftslagsbreytinga. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað, Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna árið 2016 fyrir Heiðu – fjalldalabóndann, og ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Auk þess hlaut hún Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2014 fyrir störf sín í þágu íslensks máls en í rökstuðningi dómnefndar segir: „Fegurð íslenskrar náttúru er yfir og allt um kring í ljóðheimi Steinunnar og því fer afar vel á því að hún hljóti verðlaun kennd við Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðing.“ Steinunn hefur jafnframt kennt ritlist við Háskólann í Strassborg og Háskóla Íslands.

Rithöfundasamband Íslands óskar Hannesi og Steinunni innilega til hamingju með nafnbótina!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email