Search
Close this search box.

Hallgrímur Helgason hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2017

Íslensku þýðingaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hannesarholti kl. 16 í dag, miðvikudaginn 15. febrúar 2017. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson veitti verðlaunin.

Hallgrímur hlaut verðlaunin fyrir þýðingu sína á leikritinu Óþelló eftir William Shakespeare. Umsögn dómnefndar um þýðinguna var þessi:

Í annað sinn fetar Hallgrímur Helgason í fótspor þeirra Matthíasar Jochumssonar og Helga Hálfdanarsonar og þýðir leikrit eftir Shakespeare. Nú er það ástardramað Óþelló. Skemmst er frá því að segja að textinn leikur í höndum Hallgríms, bæði prósi og bundið mál, en leikritið er að mestu í bundnu máli með lausamálsköflum inn á milli.
Í ljóðmáli þýðingarinnar nýtir Hallgrímur sér hina íslensku hefð stuðlasetningarinnar og fylgir í meginatriðum hinum jambíska pentameter eða stakhendu frumtextans en lætur þó hvorugt formið binda sig eða hefta. Hrynjandin er leikandi létt og orðgnóttin mögnuð, og Hallgrímur sveiflar sér frá ljóðrænni rómantík yfir í karlmannlega hörku og bregður svo í klámfengið orðbragð og jafnvel stöku slettur, allt eftir því sem við á hverju sinni. Merking textans er hvarvetna augljós og skýr og fjölskrúðugt sælgæti fyrir leikara, áhorfendur og lesendur.

Í dómnefnd sátu Tinna Ásgeirsdóttir (formaður), Ingunn Ásdísardóttir og Davíð Stefánsson og Bandalag þýðenda og túlka kann þeim góðar þakkir fyrir vandasamt verk sem þau leystu af hendi með prýði.

Þetta var í þrettánda sinn sem þýðingaverðlaunin eru veitt, en þau voru sett á stofn árið 2005 til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.

hallgr

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email