Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur þann 17. júní sl. Útnefningin er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi.
Guðrún gaf út sína fyrstu bók, Jón Odd og Jón Bjarna, árið 1974 og hefur upp frá því verið einn vinsælasti og virtasti barnabókahöfundur Íslands. Guðrún hefur sent frá sér 25 bækur sem þúsundir íslenskra barna hafa alist upp við og notið auk leikhandrita, kvikmynda og sjónvarpsþátta. Helsti styrkur Guðrúnar sem rithöfundar felst að mati gagnrýnenda í þeirri virðingu sem hún ber fyrir börnum jafnframt því að geta séð spaugilegar hliðar á flestum málum. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Bækur Guðrúnar hafa hlotið góða dóma heima og erlendis þar sem menn hafa skipað henni á bekk með barnabókahöfundum á borð við Astrid Lindgren og Thorbjörn Egner. Guðrún Helgadóttur hefur þá náðargáfu að geta sett sig í spor barns og sagt frá heiminum eins og það sér hann. Bækur hennar bera alltaf með sér góðan boðskap og réttur og staða þeirra sem minna mega sín eru henni hjartfólgin. Guðrún er enn að skrifa fyrir börn á öllum aldri og því er fjársjóður okkar alltaf að stækka. Árið 2005 kom út safn greina um verk Guðrúnar Helgadóttur eftir ýmsa fræðimenn undir heitinu Í Guðrúnarhúsi.
Hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar
Af mörgum vinsælum verkum Guðrúnar auk þríleiksins um Jón Odd og Jón Bjarna má nefna Ástarsögu úr fjöllunum, Pál Vilhjálmsson, Í afahúsi, leikritið Óvitar, þríleikinn Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni, Undir Illgresinu, Litlu greyin, þríleikinn Ekkert að þakka!, Ekkert að marka! og Aldrei að vita!, Núna heitir hann bara Pétur, Velkominn heim Hannibal Hallsson og Englajól.
Guðrún Helgadóttir hefur hlotið ýmiss konar verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín s.s. Norrænu barnabókaverðlaunin, Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, Bókaverðlaun barnanna og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu auk stórriddarakross Fálkaorðunnar.
Guðrún Helgadóttir fæddist í Hafnarfirði þann 7. september 1935 og ólst hún þar upp í stórum systkinahópi. Hún starfaði sem ritari við Menntaskólann í Reykjavík frá 1957 – 1967 og sem deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 1973 – 1980. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur frá 1978 – 1982 og var alþingismaður frá 1979 – 1995. Hún var forseti Alþingis 1988 – 1991, fyrst kvenna til að gegna því embætti og fyrsti kvenþingforseti í heiminum að því er best vitað.