Search
Close this search box.

Guðrún Eva og Andri Snær tilnefnd fyrir Íslands hönd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021

Bækurnar Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason eru tilnefndar fyrir Íslands hönd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

14 norrænar skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur eru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021. Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember.

„Það að skrifa á blautan pappír, hnignun og fýsnir kapítalismans sem brenna til kaldra kola um borð í Scandinavian Star, félagsraunsæislegar lýsingar á nánum samböndum og nánd tungumálsins, höfnun málamiðlana og dalur fullur af plastblómum eru aðeins fáein dæmi um viðfangsefni hinna tilnefndu verka í ár,“ segir í fréttatilkynningu Norðurlandaráðs.

Guðrún Eva Mínervudóttir er tilnefnd fyrir skáldsöguna Aðferðir til að lifa af.

„Guðrún Eva sýnir hér á listilegan hátt þá miklu næmni sem hún býr yfir sem rithöfundur. Hún færir okkur heim hljóðlátan en ólgandi heim þar sem þrá eftir tengslum, sá djúpstæði kraftur, brýst upp á yfirborðið á ferskan hátt,“ segir í umsögn dómnefndar um bókina. „Frásögnin tekur á sig blæ keðjusöngs, þar sem raddirnar kvikna ein af annarri, taka við laglínunni og fléttast saman um hríð svo úr verður sérlega áhrifamikið, margradda verk. Yfir öllu liggur værðarvoð öryggis, virðingar og djúps skilnings höfundar á þeim aðferðum sem maðurinn nýtir sér til að lifa af.“

Andri Snær Magnason er tilnefndur fyrir bókina Um tímann og vatnið.

„Í bókinni Um tímann og vatnið kemur það skýrt fram að ætli mannkynið sér að sigrast á umhverfisvá tímans þarf að sameina þá krafta sem felast í vísindalegri þekkingu okkar og persónulegum tilfinningum,“ segir í umsögn dómnefndar. „Rit Andra Snæs Um tímann og vatnið fjallar um jörðina okkar og framtíð barna okkar og annarra afkomenda. Bókin er skrifuð af jafnvægi, þekkingu, skilningi á viðfangsefninu og sterkum vilja til þess að gera heiminn betri en hann er.“

Danir tilnefna skáldsöguna Penge på lommen. Scandinavian Star. Del 1 eftir Astu Oliviu Nordenhof og ljóðabókina Mit smykkeskrin eftir Ursulu Andkjær Olsen.
Finnar tilnefna skáldsöguna Bolla eftir Pajtim Statovci og ljóðabókina Autofiktiv dikt av Heidi von Wright eftir Heidi von Wright. Færeyingar tilnefna ljóðabókina Eg skrivi á vátt pappír eftir Lív Mariu Róadóttur Jæger.
Grænlendingar tilnefna skáldsöguna Naasuliardarpi eftir Niviaq Korneliussen.
Norðmenn tilnefna skáldsögurnar Er mor død eftir Vigdis Hjorth og skDet uferdige huset eftir Lars Amund Vaage. 
Samíska málsvæðið tilnefnir ljóðabókina Gáhttára I?it eftir Ingu Ravna Eira.
Svíar tilnefna skáldsöguna Strega eftir Johanne Lykke Holm og smásagnasafnið Renheten eftir Andrzej Tichý,
Álandseyingar tilnefna skáldsöguna Broarna eftir Sebastian Johans.

Dómnefndir skipaðar fulltrúum frá löndunum tilnefna verk til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021. Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 verður kynntur þann 2. nóvember í Kaupmannahöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email