Search
Close this search box.

Guðrún Eva Mínervudóttir hlýtur viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins

Guðrún Eva Mínervudóttir við afhendingu Menningarviðurkenningar RÚV

Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut á föstudag viðurkenningu Rithöfundsasjóðs Ríkisútvarpsins. Þetta var í 64. skipti sem sjóðurinn veitir viðurkenninguna, eru þetta elstu rithöfundaverðlaun Íslendinga og eina viðurkenningin sem verðlaunar ævistarf höfunda frekar en einstök verk.

Guðrún Eva gaf ung út sína fyrstu skáldsögu og hún hefur verið afkastamikill rithöfundur. Hún hefur gefið út alls 13 bækur, ýmist skáldsögur, ljóð smásögur og einnig þýðingar. Í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur segist hún samt ekki hafa skrifað að ráði í menntaskóla og hafði enga drauma um að verða rithöfundur.

„Þegar ég byrjaði að skrifa þá byrjaði ég á minni fyrstu skáldsögu. Það var bara af því að ég fékk einhvern gríðarlegan innblástur sem þrykktist ofan í mig.“ Upphafið rekur hún til atviks sem átti sér stað þegar hún var á bakpokaferðalagi í Evrópu, þá 18 ára gömul, ásamt vinkonu. Í Feneyjum áttu þær í miklum vandræðum með að finna gistingu – „við knúðum dyra alls staðar og alls staðar var okkur vísað í burtu“ – en þegar þeim bauðst loksins náttstaður í litlu vinnukonuherbergi undir hanabjálka gerðist það: „Ég varð ólétt af minni fyrstu skáldsögu. Í fluginu á leiðinni heim byrjuðu setningarnar að koma og ég var ekki fyrr lent þegar ég reyndi að skrifa þær niður. En gat ekki skrifað nógu hratt og varð pirruð. Reif blaðið með pennanum. Svo keypti ég mér notaða fartölvu og bara byrjaði. Það tók mig ár að skrifa þessa fyrstu skáldsögu sem kom síðan út í 10 eintökum.“

Á heimasíðu RÚV má hlusta á viðtal Jórunnar Sigurðardóttur við Guðrúnu Evu á afhendingu Menningarviðurkenninga RÚV.

Rithöfundasamband Íslands óskar Guðrúnu Evu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email