Ísland

Gestaíbúðir á Íslandi


Gunnarshus

Gestaíbúð í Gunnarshúsi

Gunnarshús í Reykjavík er aðsetur Rithöfundasambands Íslands. Í húsinu er einnig gestaíbúð ætluð rithöfundum, þýðendum og öðru bókmenntafólki. Húsið er í austurbæ Reykjavíkur (10 mínútna fjarlægð frá miðbænum með strætisvagni). Dvalartími er frá einni uppí átta vikur. Leigan er kr. 38.000.- á viku, greiddar eru kr. 6.000 fyrir hvern auka gest.

Gestabúðin er vinnustofa/svefnherbergi, eldhús og bað alls um 60 fm. Tvíbreitt rúm og möguleiki á að setja inn auka dýnu. Sængurföt og handklæði fylgja.

Bókanir og nánari upplýsingar hjá Rithöfundasambandi Íslands í síma 568 3190.
Netfang: rsi@rsi.is
Vefur: Gunnarshús – Nánar um gestaíbúð – myndir – bókanir.


Gröndalshús

Gestaíbúð í Gröndalshúsi

Gröndalshús í Grjótaþorpi er fyrrum heimili Benedikts Gröndals (1826-1907), rithöfundar, teiknara og fræðimanns. Í húsinu er sýning helguð Gröndal, vinnurými fyrir lista- og fræðimenn og gestaíbúð. Íbúðin er leigð erlendum rithöfundum, fræðimönnum og þýðendum íslenskra bókmennta sem vilja vinna að list sinni í Reykjavík. Gröndalshús stendur á horni Fischersunds og Mjóstrætis. Dvalartími er frá tveimur til átta vikna. Leiga er 60.000 kr. á viku og 5.000 á viku fyrir hvern auka gest.

Íbúðin samanstendur af svefnherbergi með stóru hjónarúmi, stofu með tvíbreiðum svefnsófa, fullbúnu eldhúsi og borðstofu/vinnukrók. Baðherbergi með sturtu. Þvottavél er í íbúðinni og sængur og sængurfatnaður fylgja auk handklæða. Frí nettenging.

Nánari upplýsingar hjá Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO í síma 411 6020.
Netfang: grondalshus@reykjavik.is
Vefur: Gröndalshús – Nánar um gestaíbúð – myndir – bókanir.


Í Hannesarhorni

Í Hannesarhorni nefnist gestaíbúð á Grundarstíg 8, 1.hæð, í hjarta Reykjavíkur.  Íbúðin er ætluð rithöfundum, listamönnum og fræðimönnum og er rekin í tengslum við Hannesarholt menningarhús á Grundarstíg 10. Leigan er 70.000 á viku, greiddar eru 5.000 fyrir hvern aukagest. Lágmarksdvöl er vika. 

Íbúðin er um 100 fermetrar og er fullbúin húsgögnum. Tvíbreitt rúm í svefnherbergi, eldhús, skrifstofukrókur, baðherbergi og stofa. Þvottavél á staðnum. Sængurföt og handklæði fylgja. 

Upplýsingar veitir Ragnheiður Jónsdóttir

Netfang: ragnheidur@hannesarholt.is 


Skriðuklaustur

Skriðuklaustur í Fljótsdal

Lista- og fræðimanna íbúðin á Skriðuklaustri í Fljótsdal stendur til boða endurgjaldslaust. Í skriflegum umsóknum þarf að geta æskilegs dvalartímabils og að hverju listamaðurinn/fræðimaðurinn hyggst vinna meðan á dvöl stendur.

Umsóknir skal senda til:
Skúla Björns Gunnarssonar forstöðumanns, Gunnarsstofnun, Skriðuklaustri, 701 Egilsstaðir.

Nánari upplýsingar hjá Skúla Birni í síma 471 2990.
Netfang: klaustur@skriduklaustur.is
Vefur: Skriðuklaustur | Kort


Varmahlið

Varmahlíð í Hveragerði

Listamannahúsið Varmahlíð stendur rithöfundum og öðrum listamönnum til boða. Með húsinu fylgir 45 fm vinnustofa. Íbúðarhúsið er búið öllum húsgögnum og tækjum og Hveragerðisbær greiðir kostnað vegna hita og rafmagns. Gestalistamenn fá endurgjaldslaus afnot af húsinu. Skriflegar umsóknir, þar sem m.a. komi fram æskilegur dvalartími og að hverju listamaðurinn hyggst vinna að meðan á dvölinni stendur, sendist til:

Menningarmálanefndar Hveragerðisbæjar,
Hverahlíð 24,
810 Hveragerði.

Vefur: Varmahlíðarhúsið | Reglur um úthlutun listamannaíbúðar | Umsóknareyðublað.


Davíðshús

Davíðshús á Akureyri

Gestaíbúð er á neðri hæð húss skáldsins frá Fagraskógi að Bjarkarstíg 6, Akureyri. Íbúðin er ætluð rithöfundum og fræðimönnum til afnota í lengri eða skemmri tíma gegn vægu gjaldi, hámark einn mánuð í senn. Í íbúðinni eru: svefnherbergi, stofa, skrifstofuherbergi, eldhús og baðherbergi. Allur almennur húsbúnaður og lín er til staðar í íbúðinni, ásamt þráðlausri nettengingu.

Auglýst er sérstaklega eftir umsóknum í lista- og fræðimanna íbúðina á haustdögum fyrir komandi ár. Aðilum er hins vegar frjálst hvenær sem er að kanna hvort íbúðin sé laus á ákveðnum tímum. Umsóknir skulu berast til Þórðar Sævars Jónssonar á Amtsbókasafninu.

Amtsbókasafnið á Akureyri
b/t Þórðar Sævars Jónssonar
Brekkugötu 17
600 Akureyri
Sími: 460 1250

Netfang: thordurs@amtsbok.is
Vefur: Davíðshús – safn og skáldahús, gestaíbúð | kort


Snorrastofa

Snorrastofa í Reykholti

Stofnunin hefur til umráða aðstöðu fyrir rithöfunda, fræði- og listamenn, íslenska sem erlenda. Um er að ræða íbúð í Snorrastofu á tveimur hæðum og er innangengt á vinnuloft Snorrastofu, þ.e. stórt bókasafn, tölvur og almenna vinnuaðstöðu.

Í skólahúsinu eru tvö herbergi með góðri aðstöðu á efri hæð. Gestir þar  hafa einnig aðgang að bókasafni, tölvum og vinnuaðstöðu í Snorrastofu. Þar er líka góður funda- og ráðstefnusalur á fyrstu hæð sem rúmar allt að 90 manns í sæti og 40-50 manns við borð. Í íbúðunum eru: svefnherbergi, stofa, skrifstofuherbergi, eldhús og baðherbergi. Allur almennur húsbúnaður og lín er til staðar, ásamt þráðlausri nettengingu.

Í skriflegri umsókn þarf að koma fram auk almennra upplýsinga um umsækjanda, að hverju viðkomandi hyggst vinna og hvaða tímabil sé heppilegast.

Upplýsingar í Snorrastofu í síma: 433 8000 og 892 1490
Netfang: snorrastofa@snorrastofa.is
Vefur: Snorrastofa – íbúð fyrir fræði og listamenn | Kort


Herhúsið

Herhúsið á Siglufirði

Í Herhúsinu á Siglufirði er gestavinnustofa fyrir innlent og erlent myndlistarfólk, skáld eða aðra sem vinna að listsköpun. Herhúsið er allt nýuppgert að utan sem innan. Vinnustofan er 70 fermetra salur með um 4 metra lofthæð. Þar er góður iðnaðarvaskur, trönur og vinnuborð og þægilegur sófi sem einnig má nota sem aukarúm. Baðherbergið sem er á neðri hæð er með sturtu. Í turninum er björt stúdíóíbúð með tveimur rúmum. Í eldhúsinu er ísskápur, kaffivél, brauðrist, örbylgjuofn og tvær rafmagnshellur. Í húsinu er sjónvarp og útvarp með geislaspilara. Möguleiki er á þráðlausu háhraða ADSL sambandi með ótakmörkuðu niðurhali. Í salnum er hægt að halda sýningar, fyrirlestra og tónleika í lok dvalar. Herhúsið er í hjarta bæjarins og stutt í alla þjónustu, verslanir, þvottahús og veitingahús.

Heimilisfang: Norðurgata 7 b, 580 Siglufjörður.

Nánari upplýsingar:
Netfang: herhusid@simnet.is
Vefur: Heimasíða | Kort



Jensenshus

Jensenshús í Fjarðarbyggð

Jensenshús Tungustíg 3 Eskifirði, dvalarstaður lista- og fræðimanna, er elsta uppistandandi íbúðarhús á Eskifirði reist 1837. Húsið er nýuppgert í upprunalegri mynd á fallegum og rólegum stað í hjarta bæjarins.
Húsið er ætlað lista og fræðimönnum allt árið um kring. Ekki er gert ráð fyrir að gestir Jensenshúss greiði fyrir aðstöðuna en hins vegar er ætlast til að þeir komi á einhvern hátt á framfæri í Fjarðabyggð list sinni eða þeim verkum sem þeir eru að vinna að.
Það getur verið í formi sýningar, tónleikahalds, fyrirlestri eða með þeim hætti sem hentar hverju sinni.
Verkefni sem efla menningu í Fjarðabyggð munu njóta forgangs í umsóknarferlinu en litið er til fleiri þátta við úthlutun hússins.

Umsjón: Forstöðumaður menningarstofu í síma 470 9000
Netfang: menningarstofa@fjardabyggd.is
Vefur: Listamannaíbúð – Jensenshús | Kort


búðarhamar_01

Orlofsíbúð í gamla kaupfélagshúsinu Eyrarbakka

Gamla Kaupfélagshúsið stendur fyrir miðri Eyrargötu spölkorn frá sjóvarnargarðinum og Gamla Frystihúsinu. Íbúðin sem er á jarðhæð er með 50 fm bjartri stofu með eldhúsaðstöðu í öðrum endanum, svefnherbergi með góðu tvíbreiðu rúmi og innaf því salerni og sturta. Þráðlaus nettenging er í íbúðinni. Menningarsetrið Bakkastofa er starfrækt í húsinu á miðhæðinni en risið er íverustaður Valgeirs og Ástu Kristrúnar sem starfrækja Bakkastofu. Verð per viku 35.000 kr.

Umsjón: Ásta Kristrún og Valgeir í s. 561 2429 og 821 2428
Netfang: bakkastofa@eyrarbakki.is
Vefur: Bakkastofa