Fulltrúar Íslands á Biskops Arnö 2023

Árlega velur Rithöfundasamband Íslands tvo íslenska höfunda til að fara á debutantanámskeið á Biskops Arnö í Svíþjóð. Á námskeiðinu hittast upprennandi rithöfundar frá öllum Norðurlöndunum í fimm daga til að hlusta á fyrirlestra, taka þátt í vinnustofum og síðast en ekki síst til að kynnast kollegum sínum á Norðurlöndunum.

Sumarið 2023 verða fulltrúar Íslands annars vegar Natasha S., sem sendi frá sér frumraun sína 2022, Máltaka á stríðstímum og hlaut fyrir hana Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2022, og hins vegar Skúli Sigurðsson sem sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu í fyrra, Stóri bróðir, en fyrir hana hlaut Skúli Blóðdropann 2023.

Námskeiðið hefur verið starfrækt síðan 1964 og hefur RSÍ sent fulltrúa frá Íslandi eins lengi og elstu menn muna. Hópurinn sem tekið hefur þátt frá upphafi er því orðinn ansi stór og margir af fremstu rithöfundum landsins eiga kærar minningar frá Biskops Arnö.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email