Félag íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasamband Íslands bjóða frambjóðendum allra flokka til fundar og pallborðsumræðna um stöðu íslenskra bókmennta og tungumáls. Stjórnandi er Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 18. október næstkomandi í Þjóðmenningarhúsinu kl. 10:00, árdegis.
Blikur eru á lofti í bókaútgáfu, örtungan er í útrýmingarhættu og skóla- og héraðsbókasöfn eru svelt af nýjum bókakosti um leið og útlánum fer fækkandi. Barnabókaútgáfan stendur í járnum og útgáfa námsgagna fyrir framhaldsskóla er langt undir þolmörkum. Rætt verður um virðisaukaskatt á bækur, aðgerðir til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum og aðgengi að nýjum íslenskum bókum – svo fátt eitt sé nefnt sem brennur á þessari grunngrein menningar og menntunar.
Unnendur íslenskrar tungu og bókmennta fjölmennið!