Frá stjórn RSÍ

Vegna áskriftarveitunnar Storytel sem farin er af stað hérlendis þá vill stjórn RSÍ árétta eftirfarandi: það er afstaða RSÍ að áskriftarstreymi hafi aldrei nokkurn tíma verið hluti af framseldum réttindum í útgáfusamningi Rithöfundasambandsins og Félags íslenskra bókaútgefenda. Um hann þurfi að semja sérstaklega og hefur það enn ekki verið gert í útgáfusamningi RSÍ og FÍBÚT. Rithöfundasambandið telur engan vafa á því að samningur RSÍ og FÍBÚT feli í sér eintakagerð og eintakasölu, einnig hvað varðar hljóð- og rafbækur, en EKKI heimild útgefenda til útgáfu hljóð- og rafbóka í áskriftarstreymi.

Í útgáfusamningi RSÍ og FÍbút, 1. grein c. um hljóðbækur segir „Sé ekki um annað samið hefur útgefandinn rétt til útgáfu verksins á hljóðbók“ og seinna í sömu grein: „Höfundarlaun skulu reiknast af heildsöluverði samkvæmt 12. gr. og greiðast samkvæmt 13. gr. Um höfundareintök gilda ákvæði 18. gr. Útgefanda er heimilt að gefa út hljóðbók hjá þriðja aðila en er í slíku tilviki ábyrgur fyrir efndum gagnvart höfundinum, s.s. greiðslu höfundarlauna.“ Enn fremur er skýrt tekið fram í 1. grein f. að „Öll önnur réttindi yfir verkinu sem ekki eru undanskilin samkvæmt ákvæðum samnings þessa tilheyra höfundinum“.

Ef höfundur á efni inn á Storytel en hefur ekki samið sérstaklega um það og heldur ekki falið útgefanda sínum að semja um áskriftarstreymisrétt, þá er það afstaða RSÍ að um brot á höfundarrétti sé að ræða.

RSÍ hefur falið lögmanni félagsins, Sigríði Rut Júlíusdóttur, að fara með þetta mál fyrir hönd sambandsins og svarar hún fyrir það opinberlega að svo stöddu.

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email