Jæja, kæru félagar.
Það er nóg að gera í Gunnarshúsi. Nýverið var lokið við að útdeila úr Bókasafnssjóði og vonandi eru flestir sáttir.
Ný stjórn. Aðalfundur var haldinn í apríl. Nýir stjórnarmenn eru Vilborg Davíðsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Andri Snær Magnason. Andri er kominn aftur eftir nokkurra ára fjarveru en hann var jafnframt varaformaður RSÍ um margra ára skeið. Ég býð nýja stjórnarmenn hjartanlega velkomna og hlakka til samstarfsins.
Heiðursfélagi. Á aðalfundi var kjörinn nýr heiðursfélagi, Sigurður Pálsson. Það er mikil ánægja að bæta honum á heiðursskáldavegginn í Gunnarshúsi, en Sigurður er jafnframt gamall formaður RSÍ og þrítugasti og þriðji heiðursfélagi sambandsins.
Norrænn fundur. Í maí héldum við ásamt Hagþenki aðalfund norrænu rithöfunda- og þýðendasamtakanna, NFOR. Nær fimmtíu fulltrúar norrænu félaganna mættu til fundar sem stóð yfir í Hörpu í tvo daga. Fundurinn var mjög gagnlegur þar sem fjallað var um höfundarétt og rafræna útgáfu og félagar báru saman bækur á milli landa, en þróun og staða mála er afar mismunandi. Magnea J.Matthíasdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, hélt merkiserindi um þýðingar á milli Norðurlandanna á fundinum og Dr. Ágúst Einarsson gerði grein fyrir rannsóknum sínum á hagrænum áhrifum ritlistar. Auk þessa flutti lögmaður bandaríska Writers´Guild afar áhugavert erindi um tíu ára langa baráttu við Google risann um höfundaréttarmál. Þeim slag er langt frá því að vera lokið. Nú í júní er framundan fundur formanns og framkvæmdastjóra RSÍ með kollegum í höfundafélaga í Evrópu. Allt er þetta samstarf afar nauðsynlegt til að samhæfa aðgerðir, taka mið af og halda svipaðri stefnu í hagsmunabaráttu höfunda.
Fundur með ráðherra. Eftir að virðisaukaskattur var hækkaður á bækur hefur samningsstaða höfunda gagnvart útgefendum síst batnað. Ráðamönnum var tíðrætt um mótvægisaðgerðir vegna hækkunarinnar og nefndu oftar en ekki Bókasafnssjóð. Sá sjóður var lækkaður um helming árið 2013 af núverandi stjórnvöldum, en hækkaður á síðustu fjárlögum upp í fyrri upphæð. Hækkunin var síðan nefnd mótvægisaðgerð þótt aðeins sé hægt að túlka hana sem leiðréttingu. Ljóst er að það er afar brýnt að koma Bókasafnssjóði í lagaramma þar sem stærð hans stjórnist ekki af geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna hverju sinni, heldur taki mið af samningaviðræðum við höfunda eins og tíðkast í nágrannalöndum. Nefnd á vegum ráðuneytis var ætlað að kanna þetta í vetur og eigum við aðild að henni. Nú í maílok náðist fundur með menntamálaráðherra þar sem þessi mál voru rædd og varð að samkomulagi að ráðuneytið vinni að frumvarpsgerð upp úr hugmyndum nefndarinnar á næstu mánuðum svo koma megi sjóðnum í lagalegt umhverfi. Við bindum miklar vonir við að þetta takist. Þá fyrst verður hægt að hefja málefnalegar viðræður um viðunandi stærð sjóðsins.
Heiðurslaun. Á dögunum var haldinn fundur á vegum BÍL um heiðurslaun listamanna. Ljóst var á fundinum að enginn er sáttur við ástandið eins og það er varðandi heiðurslaunin. Formaður menntamálanefndar Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, er afar ósátt við núverandi fyrirkomulag og nokkrar hugmyndir um breytingar komu fram á fundinum. Pétur Gunnarsson, rithöfundur, lagði fram tillögur um akademíu sem væri sjálfstætt starfandi og leggði til heiðurslistamenn hverju sinni og fundarmenn veltu fyrir sér samhenginu á milli velferðarhlutverks launanna og heiðursins sem þau eiga að fela í sér.
Samningamálin. Ráðsmenn í öllum samningaráðum eru að skoða samninga. Ljóst er að brýnt er að setjast niður með forsvarsmönnum RÚV og gera nýja samninga þar sem hinir gömlu eru löngu úreltir og fallnir úr gildi. Þá er verið að skoða kvikmyndasamninga vegna bókverka og frumsaminna handrita. Þýðendasamningurinn og almenni útgáfusamningurinn eru báðir í skoðun. Margar gagnlegar athugasemdir hafa borist frá félagsmönnum og allar ábendingar eru vel þegnar. September fer að öllum líkindum í að skoða upptöku og hugsanlegar viðræður við viðsemjendur.
Námsgagnastofnun. Nýverið funduðum við með starfshópi frá Námsgagnastofnun ásamt formanni Hagþenkis. Þessi hópur á að skoða samstarf við höfunda, hvað vel er gert og hvað má betur fara í ljósi þess að Námsgagnastofnun verður nú hluti af nýrri stofnun. Við lögðum á það höfuðáherslu að ná þyrfti nýjum og nothæfum samningum fyrir höfunda nú þegar ný stofnun tekur til starfa. Auk þess gerðum við athugasemdir við efnisval og faglega og skapandi nálgun við gerð kennsluefnis.
Höfundahúsið. Að lokum vil ég minna þá félagsmenn sem á þurfa að halda, á að tryggja sér vinnuaðstöðu í húsinu fyrir næsta vetur. Gjaldið er málamynda og næði og aðstaða til fyrirmyndar. Munið einnig að skoða orlofshúsin á vefnum okkar www.rsi.is og nýta ykkur lausa daga í Sléttaleiti og á Eyrarbakka.
Gröndalshús. RSÍ hefur ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi beitt sér fyrir því að Reykjavíkurborg geri Gröndalshús að skáldaskjóli rithöfunda og fræðimanna í hjarta bókmenntaborgarinnar. Hópur áhugamanna og fólks úr báðum félögum hefur sent áskorun þessa efnis til borgarstjóra og jafnframt óskað eftir fundi með borgarstjórn um framtíð hússins í eigu borgarinnar.
Kærar kveðjur,
Kristín Helga