Fjöruverðlaunin 2020

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2020.
 
Verðlaunin hlutu:
 
Í flokki fagurbókmennta:
Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Benedikt bókaútgáfa)
 
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning)
 
Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur (Bókabeitan)
 
Þetta í fjórtánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í sjötta sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Verðlaunahafar fá verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.
 

Rökstuðningur dómnefnda

Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Benedikt bókaútgáfa)
Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er ljómandi vel skrifuð og margþætt skáldsaga. Þar fléttast saman sögur ólíkra persóna; eldri manns sem elst upp við Breiðafjörð, húsmóður í Kópavogi og ungs innflytjanda frá Kína. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera jaðarsett og einangruð, hvert á sinn hátt. Heimurinn sem Bergþóra dregur upp er grimmur en persónur hennar eru heilsteyptar og þótt lýsingar séu oft gróteskar eru þær skapaðar af stakri næmni fyrir breyskleika mannfólksins. Bergþóra dregur fram áhrifaríkar myndir sem sitja lengi í lesandanum og vald hennar á tungumálinu er slíkt að unun er að lesa Svínshöfuð.

Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning)
Jakobína, saga skálds og konu, segir frá lífi og starfi Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar. Jakobína er án efa með merkilegri skáldum síns tíma á Íslandi, en ferlið var oft flókið. Bókin segir frá löngun í menntun, togstreitu gagnvart hjónabandi og síðar húsmóðurhlutverkinu, og skáldastarfinu sem hún brann fyrir alla ævi.  Bókin er skrifuð af dóttur Jakobínu, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur, sem tvinnar einstaklega vel saman sögu þessarar áhugaverðu konu, bréfaskrif milli Jakobínu og hennar nánustu, og ljóð eftir hana og aðra. Útkoman er forvitnileg saga sem gefur ómetanlega innsýn inn í líf og hugarheim þessa áhrifamikla skálds.

Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur (Bókabeitan)
Bergrún Íris Sævarsdóttir er fjölkunnug mjög enda bæði afbragðs listakona og rithöfundur. Bók hennar, Kennarinn sem hvarf er fimlega byggð spennusaga sem heldur lesendum á aldrinum 9-12 ára föngnum til enda. Spennusagnaformið keyrir söguna áfram en sagan er allt í senn, hröð og skemmtileg og byggð samkvæmt lögmálum hefðbundinnar frásagnar. Söguna segir 12 ára gömul stúlka sem ásamt bekkjarfélögum sínum leita horfins kennara og leysa um leið flóknar þrautir. Persónurnar virðast við fyrstu sýn fremur einfaldar og staðlaðar en þegar á reynir eru þær ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur verða þær lifandi og margræðar þegar á frásögnina líður rétt eins og frásögnin sjálf. Bygging bókarinnar ásamt persónusköpun fleytir þessari heildstæðu sögu hátt og færir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur Fjöruverðlaunin 2020.

Rithöfundasamband Íslands óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email