Erlingur Sigurðarson, skáld og fv. kennari, lést 12. nóvember sl., sjötugur að aldri. Erlingur fæddist á Grænavatni í Mývatnssveit 26. júní 1948. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1969, lauk BA-prófi í íslensku og sögu frá HÍ 1976, cand. mag.-prófi frá sama skóla 1987 og prófi í uppeldis- og kennslufræði 1981. Hann stundaði einnig nám við Colby College í Maine í Bandaríkjunum og háskólann í Tübingen í Þýskalandi.
Erlingur var kennari við Menntaskólann á Akureyri 1978-97 og forstöðumaður Sigurhæða – Húss skáldsins á Akureyri 1997-2003. Hann birti fjölda greina og ljóða í blöðum og tímaritum og gaf út tvær ljóðabækur: Heilyndi 1997 og Haustgrímu 2015.
Erlingur naut starfslauna listamanns hjá Akureyrarbæ 2005 og fékk heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar fyrir ritlist árið 2016.Rithöfundasamband Íslands þakkar Erlingi samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.