Elías Snæland Jónsson, rithöfundur og ritstjóri, er látinn, 79 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum 8. apríl síðastliðinn.
Elías fæddist á Skarði í Bjarnarfirði á Ströndum 8. janúar 1943. Foreldrar hans voru Jón Mikael Bjarnason og Hulda Svava Elíasdóttir. Ungur flutti Elías með foreldrum sínum suður í Njarðvík og ólst þar upp. Stundaði nám við Samvinnuskólann á Bifröst og lauk þaðan prófi árið 1962. Í framhaldi af því fór hann til náms í blaðamennsku í Noregi, sem markaði braut hans til framtíðar. Elías var blaðamaður á Tímanum 1964-1973 og ritstjóri Nýrra þjóðmála 1974-1976. Hann var blaðamaður og ritstjórnarfulltrúi á Vísi 1975-1981 og í framhaldi af því ritstjóri Tímans 1981-1984. Fór svo til starfa á DV sem aðstoðarritstjóri og var til 1997. Var síðan ritstjóri á Degi til 2001.
Jafnhliða blaðamennsku skrifaði Elías fjölda bóka af ýmsum toga. Leikritið Fjörubrot fuglanna var frumsýnt í Borgarleikhúsi ungs fólks í Dresden (Theater Junge Generation) í þýskri þýðingu 1999. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Brak og bresti 1993 og saga hans Návígi á hvalaslóð, sem kom út árið 1998, var á heiðurslista barnabókasamtakanna IBBY. Skáldsagan Draumar undir gaddavír kom út 1996.
Einnig skrifaði Elías ýmislegt um söguleg efni. Tók meðal annars saman bókina Möðruvallahreyfingin, en það var klofningsbrot úr Framsóknarflokknum. Er sú bók einnig lýsing á mörgu í samfélagi þess tíma. Þá skrifaði Elías bókina Síðasta dagblaðið á vinstri vængnum sem fjallaði um útgáfu Dags í ritstjóratíð hans. Sem ungur maður var Elías virkur í starfi Framsóknarflokksins og síðar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Þá var hann formaður Blaðamannafélags Íslands 1972-1973. Elías var félagsmaður í Rithöfundasambandi Íslands frá 1986.
Eftirlifandi eiginkona Elíasar er Anna Kristín Brynjúlfsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi latínu- og stærðfræðikennari. Synir þeirra eru þrír og barnabörnin fjögur.
Rithöfundasamband Íslands vottar aðstandendum Elíasar samúð.