Search
Close this search box.

Dagar ljóðsins

malthing-jon-ur-vor-100-ara-minning

100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns úr Vör 21. janúar 2017 og hófst þá ljóðahátíðin Dagar ljóðsins í Kópavogi.

Dagar ljóðsins

Dagar ljóðsins standa í rúma viku og fjölmargir viðburðir fyrir alla fjölskylduna verða á hátíðinni. Menningarhúsin í Kópavogi bjóða upp á tvær fjölskyldustundir laugardaginn 21. janúar, ljóðatónleikana Ég sá sauð í Salnum og ritsmiðjuna Búum til bók á Bókasafni Kópavogs. Þriðjudaginn 24. janúar kemur Jón Yngvi Jóhannsson á aðalsafn Bókasafns Kópavogs og heldur erindið Eftir flóðið þar sem hann gengur fjörur jólabókaflóðsins 2016. Fimmtudaginn 26. janúar verður grasrótarkvöld í Garðskálanum þar sem hægt verður að hlýða á ferska strauma í íslenskri ljóðagerð – og jafnvel stíga á stokk sjálfur.

Samhliða þessu verður sýning frá Mynda- og sögusafni Vestur-Barðarstrandasýslu um Jón úr Vör á bókasafninu og einnig verður þar sett upp ljóðalistaverk eftir Hörpu Dís Hákonardóttur.

Dögum ljóðsins lýkur 28. janúar þegar haldið verður málþingið Jón úr Vör – skáld þorps og þjóðar í Salnum, þar sem sýnd verður stutt heimildarmynd Marteins Sigurgeirssonar um skáldið og rithöfundar og fræðimenn minnast Jóns. Þorsteinn frá Hamri ávarpar gesti og haldin verða erindi um bæði manninn og skáldið Jón úr Vör.

Orðlistin verður áberandi um allt bæjarfélagið á meðan Dögum ljóðsins stendur. Leikskólabörnum verður boðið í ljóðasmiðjur á bókasafninu, grunnskólanemendur hafa setið baki brotnu við ljóðagerð fyrir ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og vinningsljóðunum verður dreift um bæinn á veggspjöldum og bókamerkjum. Það er von Lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar að hátíðin og samkeppnin um Ljóðstaf Jóns úr Vör séu bæði lestrar- og skriftahvetjandi og kveiki áhuga á hinu ritaða orði hvarvetna í samfélaginu.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Kópavogsbæjar.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email