Stjórn Rithöfundasambandsins hefur gert samkomulag við Félag íslenskra bókaútgefenda um tvo viðauka við útgáfusamninginn vegna hljóðbóka sem þegar hafa verið gefnar út, og breytingar á útgáfusamningnum sjálfum vegna verka sem útgefin verða héðan í frá.
Höfundar geta í samningum við útgefendur valið hvor þeir vilji að verkum þeirra verði miðlað/dreift í gegnum áskriftarveitur eða ekki:
- A) Viðauki við útgáfusamning um hljóðbókarétt í eintakasölu. Aðalákvæði þess viðauka er að miðlun með áskriftarfyrirkomulagi er UNDANSKILIN. Þ.e. útgefandi hefur rétt til að selja hljóðbækur í eintakasölu en EKKI með áskriftarfyrirkomulagi.
- B) Viðauki við útgáfusamning um hljóðbókarétt í eintakasölu OG með áskriftarfyrirkomulagi. Hér er útgefanda heimilt að selja hljóðbók með áskriftarfyrirkomulagi en framleiði útgefandinn ekki sjálfur hljóðbókina þá skal semja sérstaklega um prósentur höfundar af slíkri sölu.
Við gerð viðaukanna var gerður skýr greinarmunur á hljóðbók sem framleidd er af útgefandanum sjálfum og hljóðbók sem framleidd er af áskriftarveitu. Sömu sjónarmið skulu einnig gilda um rafbækur og er vakin athygli á breytingum sem gerðar eru á 13. gr. útgáfusamnings.: “Um rafbækur sem dreift er með áskriftarfyrirkomulagi, sé um það samið, skal að öðru leyti hið sama gilda og að ofan greinir um hljóðbækur“
Í fyrra tilfellinu, þ.e. þegar útgefandi hefur borið kostnað af framleiðslu hljóðbókar, er miðað við sömu prósentu í áskriftarfyrirkomulagi og í eintakasölu, þ.e. 23% af greiðslum áskriftarveitunnar til útgefandans.
Ekki náðist samkomulag um höfundaprósentu í seinna tilfellinu þ.e. þegar áskriftarveita framleiðir hljóðbókina en ekki útgefandinn. Niðurstaða samninganefndar RSÍ var því að lenda efnislegum samningi en hafa prósentuna samningatriði milli höfundar og útgefenda.