Search
Close this search box.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Ragnar Helgi Ólafsson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2015 fyrir ljóðahandritið  Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema 700 þúsund krónum. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið úr prentun í útgáfu Bjarts.

  • Ragnar Helgi Ólafsson, verðlaunahafi, Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðmálaráðs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að lokinni athöfninni í Höfða í dag.
    Ragnar Helgi Ólafsson, verðlaunahafi, Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðmálaráðs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að lokinni athöfninni í Höfða í gær.

Ragnar Helgi las heimspeki við Háskóla Íslands og lagði síðar stund á nám í myndlist í Frakklandi. Hann hefur síðastliðin ár unnið að myndlist og sýnt verk sín víða um heim, meðfram því að sinna grafískri hönnun og kennslu auk þess að spila tónlist með ýmsum hljómsveitum.  Hann er annar forsvarsmanna Tunglsins forlags og situr auk þess í ritstjórn tímaritraðarinnar 1005 og veftímaritsins Skíðblaðnis. ,,Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í sam¬tíma sínum“ er þriðja bók hans, en áður hefur hann sent frá sér skáldsöguna ,,Bréf frá Bútan“ og smásagnasafnið ,,Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur“. Ragnar Helgi  býr í Reykjavík.

Alls bárust 48 handrit að þessu sinni. Í dómnefnd sátu Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, Bjarni Bjarnason og Páll Valsson formaður nefndarinnar. Í umsögn dómnefndar kemur fram að henni hafi verið ánægjulegur vandi á höndum, sem var að lokum erfitt val á milli nokkurra góðra handrita. Þegar upp var staðið var hún hins vegar öll sammála um að heildstæðasta handritið og það sem fremst stæði meðal jafningja væri það sem nú er komið á bók undir heitinu Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Eitt helsta einkenni hennar væri myndvísi. Hún ber vitni góðri myndgáfu höfundar en hann hefur líka eftirtektarverð tök á að klæða þær myndir í orð. Annað einkenni þessarar bókar væri að tefla saman að því er virðist óskyldum hlutum af vissum óhátíðleika. Þetta skapaði ákveðna spennu sem ljær ljóðunum aukna dýpt. Kæruleysið á yfirborðinu leynir á sér. Fjölbreytileiki er líka einn styrkur bókarinnar, hún er margradda í góðum skilningi; tekist er á við heimspekileg viðfangsefni jafnhliða þeim sem stundum eru kölluð hversdagsleg, en eru auðvitað alveg jafn sígild, hér eru prósaljóð og frásagnir jafnframt knöppum og meitluðum ljóðum. Tilfinningin er sú að lífið leyni á sér, ekkert er sem sýnist, lífið er sem næturveiði og því gildir að skyggnast dýpra í hylinn.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email