Ragnheiður Lárusdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2020 fyrir handrit sitt að ljóðabókinni 1900 og eitthvað. Bókin, sem er fyrsta bók höfundar, er komin út hjá bókaforlaginu Bjarti.
1900 og eitthvað er fyrsta ljóðabók Ragnheiðar en hún hefur birt stök ljóð í gegnum tíðina, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, á vefritinu Lestrarklefinn og á eigin Facebook síðu. Að eigin sögn hefur hún fengist við að skrifa ljóð frá því hún lærði að skrifa og hefur átt sér þann draum lengi að gefa út bók þótt hún hafi hingað til geymt handritin í skúffunni heima:
„Það er dásamleg og merkileg lífsreynsla þegar draumar rætast. Í dag tek ég við Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrsta handritið sem ég reyni að koma á framfæri og á sama tíma kemur það út á bók. Ég er innilega glöð og þakklát.“
Ragnheiður er fædd árið 1961. Hún er íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi og lauk meistaranámi í kennslu listgreina frá Listaháskóla Íslands 2016 auk þess sem hún hefur lokið söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík.
Umsögn dómnefndar
Í dómnefnd voru þau Sif Sigmarsdóttir, sem var formaður, Börkur Gunnarsson og Eyþór Árnason. Í umsögn nefndarinnar um verðlaunahandritið segir m.a:
„1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur er heillandi uppvaxtarsaga prestsdóttur að vestan, vegferð hennar um torfarnar heiðar jafnt sem lífsins rangala.
Ljóðmælandi dregur upp tærar hversdagsmyndir sem í fyrstu virðast léttvægar; hálfdauðar flugur í gluggakistu kirkjunnar; póstskorturinn sem skellur á þegar ófært er yfir heiðina. En þegar líða tekur á verkið verður lesanda ljóst að það er einmitt í þessum léttvægu stundum sem lífið liggur og örlögin ráðast. Það fellur að og fjarar út, bönd verða til og þau slitna, draumar rætast og vonir bresta, allt yfir kaffibolla, nýveiddum silungi og Andrésblöðum.“
Alls bárust 52 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina í ár og voru þau send inn undir dulnefni. Aðeins var umslag með réttu nafni verðlaunahöfundar opnað. Reykjavíkurborg hefur veitt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar frá árinu 1994 og hafa þau verið veitt fyrir ljóðahandrit eingöngu frá 2004. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum.