Search
Close this search box.

Bókmenntahátíð í Reykjavík hefst í dag

Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík fer fram 19.-23. apríl 2023. Hátíðin er einn líflegasti bókmenntaviðburður ársins og verður sett með hátíðlegri athöfn í Iðnó í dag!

Á hátíðinni gefst einstakt tækifæri til að heyra sögur og frásagnir heimsþekktra rithöfunda sem hingað eru komnir til þess að taka þátt í þessari veislu lesenda, höfunda, útgefenda, þýðanda og bókafólks. Dagskráin verður fjölbreytt og spennandi: fyrirlestrar, samtöl á sviði og upplestrar að ógleymdu hinu sívinsæla Bókaballi. 

Von er á höfundum, útgefendum og fjölmiðlafólki frá sex heimsálfum sem koma til þess að taka þátt og fylgjast með hátíðinni. Meðal þeirra erlendu höfunda sem hafa boðað komu sína í ár eru Colson Whitehead, Jenny Colgan og Åsne Seierstad og á meðal íslenskra höfunda er Pedro Gunnlaugur Garcia sem nýverið tók við Íslensku bókmenntaverðlaunum fyrir skáldsögu sína Lungu.

Colson Whitehead er tvöfaldur Pulitzer-verðlaunahafi og í bókum sínum skrifar hann meðal annars um átök, kúgun og kynþáttahyggju í Bandaríkjunum. Hann er einn rómaðasti höfundur samtímans og lesinn um heim allan. Jenny Colgan er drottning ljúflestrarbókanna og skrifar um um áhugaverðar persónur í lífsins ólgusjó sem gaman er að gleyma sér við lestur á. Åsne Seierstad er blaðamaður og höfundur sem hefur sagt mikilvægar sögur frá mestu átakasvæðum heimsins í gegnum blaðageinar og bækur. 

„Bókmenntahátíðin í Reykjavík er frábært tækifæri til þess að koma saman og fagna hinu ritaða orði og til þess að sameina bókaunnendur í áhuga þeirra á sögum og frásögnum,“ segir framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Stella Soffía Jóhannesdóttir. „Við erum himinlifandi að fá svona stórkostlega höfunda í ár og getum ekki beðið eftir að opna hátíðina í apríl.“

Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar og hægt verður að fylgjast með í streymi líka. Dagskráin verður kynnt nánar þegar nær dregur, en óhætt er að halda því fram að allir lesendur geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Dagskrá hátíðarinnar má finna hér.

Bókmenntahátíð á facebook.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email