Á mynd: Tilnefndir höfundar og staðgenglar þeirra.
Frá vinstri: Pétur Már Ólafsson (fyrir hönd Yrsu Sigurðardóttur), Jónína Leósdóttir, Ragnar Jónasson, Úa Matthíasdóttir (fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar) og Lilja Sigurðardóttir.
Tilnefningar til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna 2017, voru kynntar á Borgarbókasafninu í Grófinni miðvikudaginn 7. desember. Það er Hið íslenska glæpafélag sem veitir verðlaunin.
Fram til þessa hefur ekki verið tilnefnt sérstaklega til verðlaunanna, heldur hafa allar íslenskar glæpasögur komið til greina á hverju ári. Með sívaxandi útgáfu hefur þessu fyrirkomulagi nú verið breytt og fimm glæpasögur tilnefndar, en sjálfur Blóðdropinn verður afhentur í vor. Sú glæpasaga sem hlýtur verðlaunin er þar með tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.
Tilnefningar til Blóðdropans 2017 eru eftirfarandi:
Arnaldur Indriðason: Petsamo (Vaka-Helgafell)
Jónína Leósdóttir: Konan í blokkinni (JPV útgáfa)
Lilja Sigurðardóttir: Netið (JPV útgáfa)
Ragnar Jónasson: Drungi (Veröld)
Yrsa Sigurðardóttir: Aflausn (Veröld)
Í dómnefnd voru þau Kristján Jóhann Jónsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Vera Knútsdóttir.
Pétur Már Ólafsson tók við tilnefningu fyrir hönd Yrsu Sigurðardóttur og Úa Matthíasdóttir veitti viðtöku fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar.