Search
Close this search box.

Birgir gerður að heiðursfélaga

Birgir Sigurðsson leikskáld

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands var haldinn 2. maí 2019.

Á fundinum var Birgir Sigurðsson leikskáld kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands.

Margrét Tryggvadóttir var endurkjörin meðstjórnandi og Sindri Freysson var kosinn í annað sæti meðstjórnanda. Auður Jónsdóttir var kjörin varamaður.

Auk ofantalinna sitja í stjórninni Karl Ágúst Úlfsson formaður, Vilborg Davíðsdóttir varaformaður, Jón Gnarr meðstjórnandi og Bjarni Bjarnason varamaður.

Ávarp formanns Karls Ágústs Úlfssonar við kjör heiðursfélaga:

Birgir Sigurðsson stimplaði sig rækilega inn í íslenskt leikhús- og menningarlíf með leikriti sínu Pétri og Rúnu árið 1972, þá 35 ára að aldri, en áður hafði hann sent frá sér ljóðabækurnar Réttu mér fána og Á jörð ertu kominn. Í Pétri og Rúnu, sem varð hlutskarpast í leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur kvað við ferskan tón í íslenskri leikritun og með verkunum sem í kjölfarið fylgdu, Selurinn hefur mannsaugu, Skáld-Rósu og Grasmaðki tók Birgir af öll tvímæli um að Ísland hafði eignast eitt af öflugustu leikskáldum samtímans. Þegar Dagur vonar var frumsýndur 1987 gat engum blandast hugur um þau ofurtök sem höfundurinn hafði á leikritsforminu, hvort sem litið var á persónusköpun, samskipti leikpersóna eða uppbyggingu og framvindu leiksögunnar.
Verk Birgis eru oft persónuleg og samúð hans með fólkinu sínu, persónunum sem hann leiðir fram fyrir áhorfendur eða lesendur, er ótvíræð, auk þess sem sársauki höfundarins skín á stundum í gegnum tilfinningalíf fólksins á sviðinu. Verk hans stíga listilegan dans á mörkum þess ljóðræna og hversdagslega – á mörkum þess grimma og þess blíða – og hann er örlátur á innsæi sitt, bæði vitsmunalegt og tilfinningalegt. Það er fallegur eiginleiki í fari höfundar og alls ekki sjálfgefinn.

Um þörfina fyrir að skrifa segir Birgir í viðtali við DV árið 2000: „Maður veit ekki hvaðan þörfin kemur en það ræðst ekki við hana. Ef svo væri þá væri maður líklega í öðru starfi. Þetta er eins og að vera haldinn; það er eins og lagðir hafi verið á mann galdrar; það er engin leið út. Sumir kalla þetta köllun; ég kalla það þörf. Persónulega hef ég þörf til að nálgast annað fólk; það er ekki víst að það takist alltaf en þegar það tekst er það mjög gleðilegt.“

En Birgir lét ekki staðar numið við Dag vonar. Hann hefur einnig gefið þjóð sinni leikritin Óskastjarnan, Dínamít og Er ekki nóg að elska, smásagnasöfnin Frá himni og jörðu og Prívat og persónulega, sagnfræðiritið Svartur sjór af síld og skáldsögurnar Hengiflugið og Ljósið í vatninu. Auk þess hefur hann með þýðingum sínum fært okkur höfunda á borð við Sam Shephard og Doris Lessing. „Fyrst og fremst gerir maður þetta fyrir sjálfan sig og sinn eigin sannleik.“ segir Birgir í viðtali við Helgarpóstinn í desember 1984,  „Ef svo vill til að einhver eða einhverjir aðrir eru sammála mínum sannleik, þá er það ágætt — en það er ekkert sem rithöfundur á heimtingu á.“

Birgir Sigurðsson hefur tekið virkan þátt í félagsmálum og réttindabaráttu listamanna á Íslandi. Hann var varaformaður Rithöfundasambands Íslands á árunum 1982 til ’86 og forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1985 – ’87. Á sömu árum var hann einnig í stjórn Listahátíðar.

Í Degi vonar leggur höfundurinn þessi orð í munn stúlkunnar Öldu:
Hún var nú stödd hjá tré sem var fegurst allra trjáa. Það var eins og huggun sem sagði að enn væri til fegurð, þrátt fyrir allt. Og hún gaf sig á tal við lífið: „Þú hefur gefið mér margt og sagt mér hvers virði allt er, en eitt met ég mest.“ – Lífið langaði þá til þess að vita, hvað af þess miklu auðæfum væri dýrast. „Fagra líf,“ sagði hún, „ef mér væri ekki gefinn skilningur væri ég eins mikil þögn og dauðinn.“


Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email