Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Höfða í dag, miðvikudaginn 28. apríl, og er þetta annað árið í röð sem það er gert við nokkuð óvenjulegar aðstæður vegna Covid-19. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, afhenti höfundunum verðlaunin í Höfða.
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga.
Verðlaunahafar eru Snæbjörn Arngrímsson fyrir frumsamda bók, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf, Freydís Kristjánsdóttir fyrir myndlýsingu í bókinni Sundkýrin Sæunn og Jón St. Kristjánsson í flokknum þýðingar fyrir Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen 3.
Verðlaunin eru elstu barnabókverðlaun á Íslandi en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.
Í ár fékk dómnefndin 116 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.