Search
Close this search box.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018

dsc02270

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018 koma í hlut Kristínar Helgu Gunnarsdóttur fyrir bókina Vertu ósýnilegur, Magneu J. Matthíasdóttur fyrir þýðingu á bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur og Ránar Flygenring fyrir myndskreytingar í bókinni Fuglar. Á næsta ári verða jafnframt veitt verðlaun í nafni Guðrúnar Helgadóttur fyrir óbirt handrit að barna- og unglingabók.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða síðasta vetrardag. Verðlaunin eru þrískipt og veitt árlega fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina á íslensku, bestu þýðingu á barna- og unglingabók og bestu myndskreytingu á barna- og unglingabók.

Kristín Helga Gunnarsdóttir skáldkona fékk verðlaunin í flokki frumsaminna barnabóka fyrir bók sína Vertu ósýnilegur sem Mál og menning gaf út á liðnu ári.  Í umsögn dómnefndar segir:
Í liprum og raunverulegum lýsingum er fjallað um baráttu fólks til að lifa venjulegu lífi í hringiðu hrikalegra stríðsátaka. Á sama tíma er fjallað af nærfærni um viðkvæmar tilfinningar unglinga og ungs fólks, samskipti og samskiptavanda. Það getur verið erfitt að aðlagast og sættast við framandi samfélag og víða hamla fordómar og vanþekking eðlilegum samskiptum. 

Magnea J. Matthíasdóttir fékk Barnabókaverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur eftir Elenu Favilli og Francescu Cavallo. Mál og menning gaf út. Í umsögn dómnefndar segir m.a..:
Þýðing Magneu nær vel utan um snarpan og einfaldan stíl bókarinnar og framkallar það sem höfundarnir óska sér; löngun til að leita meiri upplýsinga um hverja og eina af hundrað stelpum sem á ýmsan máta voru og eru uppreisnargjarnir brautryðjendur. 

Verðlaun fyrir bestu myndskreytingu komu í hlut Ránar Flygenring fyrir teikningar í bókinni Fuglar eftir þau Hjörleif Hjartarson sem Angústúra gaf út 2017. Í umsögn dómnefndar segir m.a.;
Persónuleiki íslenskra fugla, þeirra daglega amstur og umhverfi er dregið upp á einstaklega skemmtilegan hátt. Í teikningum Ránar er mátuleg blanda af kæruleysi og vandvirkni, skopi og alvöru. Texti og myndir skapa sterka heild og vitna um litanæmi og listfengi. Magnaðar teikningar sem vekja áhuga ungra lesenda,  og lesenda á öllum aldri, á fræðandi efni.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru elstu fagverðlaun fyrir barnabókmenntir á landinu og hafa verið veitt óslitið frá árinu 1973 með það að markmiði að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir börn og ungmenni. Verðlaunin eru í formi fjárveitingar og viðurkenningarskjals. Dómnefnd var að þessu sinni skipuð Brynhildi Björnsdóttur, formanni, Jónu Björgu Sætran borgarfulltrúa, Gunnari Birni Melsted grunnskólakennara, Davíð Stefánssyni, fulltrúa Rithöfundasambands Íslands, og Þórdísi Aðalsteinsdóttur, fulltrúa Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 
Við afhendingu Barnabókaverðlauna Reykjavíkur tilkynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að frá og með næsta vori yrðu árlega veitt sérstök barnabókaverðlaun í nafni Guðrúnar Helgadóttur, eins vinsælasta og virtasta barnabókahöfundar landsins. Þau verðlaun verða veitt fyrir óbirt handrit að barna- og unglingasögu og munu nema einni milljón króna.

Guðrún Helgadóttir var borgarlistamaður Reykjavíkur 2017. Hún gaf út sína fyrstu bók, Jón Odd og Jón Bjarna, árið 1974 og hefur síðan sent frá sér 25 bækur og skrifað að auki leikrit og handrit að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Bækur hennar hafa hlotið fádæma góðar viðtökur hér heima og erlendis.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email