Þann 8. janúar 2025 var Áslaugu Jónsdóttur veitt viðurkenning Rithöfundasjóðs RÚV. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Viðurkenninguna hlýtur Áslaug fyrir fjölbreytt verk sín og framlag til íslenskra bókmennta, barnamenningar og myndlistar. Áslaug er fjölhæfur listamaður en auk þess að skrifa bækur sem eiga sér aðdáendur á öllum aldri, hérlendis og víða um veröld, er hún mikilvirkur myndskreytir og hönnuður. Frá árinu 1990 hefur Áslaug ritað og myndlýst fjölda barnabóka, skrifað ljóð og leikrit, auk þess að taka þátt í myndlistar- og bókverkasýningum. Hennar nýjustu sköpunarverk eru ljóðabókin Til minnis og limrubókin Allt annar handleggur, sem komu út árið 2023 og Skrímslaveisla sem kom út í fyrra (2024).“
Rithöfundasambandið óskar Áslaugu innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. Við fengum góðfúslegt leyfi hennar til þess að birta ávarpið sem hún flutti við athöfnina.
Ráðherra, útvarpsstjóri, valnefndir og góðir áheyrendur!
Hjartans þakkir! Það er mikill heiður að hljóta viðurkenningu sem er kennd við Ríkisútvarpið, rótgróna menningarstofnun sem hefur verið mikilvægur hluti af daglegu lífi eins lengi og ég man eftir. Að fá verðlaun fyrir það sem ég hef starfað við megnið af ævinni, það gleður, hvetur og eflir. Það fær mig til að líta um öxl og það endurlit nær nú bara furðu langt aftur!
Það var til dæmis í þá tíð þegar tónlist og talað mál fengu að hljóma upphátt á heimilum. Nú heyrist varla tónn á milli hæða eða út um glugga. Við sveimum um í okkar eigin hljóðheimum með hlaðvörp og lagalista í heyrnartólum. Það hefur sína kosti en tímarnir eru sannarlega breyttir: sameiginleg hlustun eða áhorf heyra nánast sögunni til.
Ég held að í sveitinni hafi verið útvarp í svo til hverju herbergi. Dagskráin var spiluð eins og hún lagði sig frá morgni til kvölds einhvers staðar í húsinu: Í eldhúsinu, stofum og svefnherbergjum, í fjósinu og meira að segja í kartöflugarðinum. Við vildum alls ekki missa af miðdegissögunni svo rafhlöðudrifnu útvarpi var dröslað með um garðinn. „Grænn varstu dalur“ * í lestri Óskars Halldórssonar var alveg kjörin til hlustunar þar sem við grófum okkur í gegnum moldina.
Auðvitað voru sögustundir barnatímans uppáhald og raddir lesaranna ógleymanlegar. Enginn var of gamall eða ungur fyrir Þorleif Hauksson og Bróður minn Ljónshjarta. Silju Aðalsteinsdóttur og Sautjánda sumar Patreks. Svo var það líka útvarpsleikhúsið magnaða og óskalögin öll: það skipti engu máli hvort þau voru ætluð sjómönnum eða sjúklingum, ungu fólki eða öldungum, hvort það var jazzinn hans Múla eða messurnar – við vorum alætur á útvarpsefni. Fréttatímar og lífsnauðsynlegar veðurfréttir voru helgistundir. Veðurstöðvarnar og sérstök staðarnöfnin mótuðu alveg einstakt landakort í huganum og í hlutföllum sem fundust ekki í kortabókum.
Nú er ég alveg að missa mig í nostalgíunni. Ég vil taka fram að ég er líka alsæl í núinu með hlaðvarpsþætti RÚV í eyrnasniglunum seint og snemma. Þó það nú væri!
En í þessu endurliti til bernskunnar rifjaðist upp fyrir mér að þetta er reyndar ekki fyrsta viðurkenningin mín frá Ríkisútvarpinu. Fyrir sléttum 50 árum – í janúar 1975 var efnt til samkeppni í barnatímanum og ég tók auðvitað þátt. Einhverjum vikum síðar fékk ég upphringingu um sveitasímann frá umsjónarmanni barnatímans, Gunnari Valdemarssyni, með tilkynningu um viðurkenningu fyrir myndir sem ég hafði teiknað við hinn ægilega ljóðabálk Stjörnufák eftir Jóhannes úr Kötlum.
En það var sem sagt í boði Ríkisútvarpsins að ljóðið var lesið upp í barnatímanum og ungir áheyrendur máttu senda inn myndræna túlkun sína. Þeir sem þekkja ljóðið vita að það er engin barnagæla. Ef það væri lesið í fréttatíma í dag myndi fylgja svona athugasemd: „Við vörum við myndunum …“
„Einn hann stóð í auðnarríki
yfir hinu bleika líki …“
Barnaefnið 1975!
Og ljóðinu lýkur svo:
„Jörðin tók að titra og stynja,
– tröllaborgin var að hrynja:
Loksins eftir langa mæðu
laukst nú saman þeirra gröf.“
En þetta var mjög ánægjulegt allt saman og ég naut mín með blað og blýant og sendi inn myndir sem seinna voru svo birtar í Stundinni okkar í sjónvarpinu.
Samtalið þarna um sveitasímann var nú ekki ýkja langt eða fjálglegt en ég man að Gunnar hrósaði mér fyrir líflegar og sannverðugar myndir: ég hlyti að hafa komið oft í stóðréttir! Nei, svaraði þessi 11 ára verðlaunahafi: aldrei.
Svona kom ímyndunaraflið sér strax vel!
En sköpunargleðin vex ekki úr engu. Hana þarf að næra svo hún vaxi og dafni. Hún þrífst á listinni sem fyrir er, til dæmis dramatískum ljóðum sem reyna á barnshugann, á því sem vel er gert og eftirminnilega. Sumt síast inn með tímanum og við skulum aldrei vanmeta börn og lítillækka þau með of auðmeltu efni.
Manneskjan þráir sögur, að fræðast og forvitnast til að skilja sjálfa sig. Til að fá botn í þennan margslungna heim sem er jafn óskiljanlegur og mótsagnakenndur og hann hefur alltaf verið. Í dauðaleit skrunum við gegnum örsögur á samfélagsmiðlum í von um snert af hugljómun. Kjarni manneskjunnar er sá sami, þó umhverfið og sögurnar breytist. Og okkur skortir ekki sögurnar og raddirnar: þær flæða í stríðum straumi. Okkur skortir öllu heldur næði til að njóta og skynja og mögulega greina hismið frá kjarnanum – hreina tóninn í öllu skvaldrinu –
og þá kannski, bara kannski, – náum við að skilja eitthvað ofurlítið. Stundum þurfum við líka það sem við óttumst mest í útvarpi: einfaldlega: – – – – – – þögn.
Ég þakka fyrir mig.