Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin, var afhentur í 11. sinn 22. júní sl. en Arnaldur Indriðason hlaut verðlaunin fyrir bókina Petsamo (2016). Að sögn Guðrúnar Ögmundsdóttur fulltrúa dómnefndar fellur hún í flokk með allra bestu íslenskum glæpasögum. Petsamo fer sem framlag Íslands í keppnina um bestu norrænu glæpasöguna, Glerlykilinn, en þau verðlaun hefur Arnaldur unnið tvisvar sinnum áður.
Petsamo er þriðja bók Arnaldar í seríunni um lögreglumennina Flóvent og Thorsson. Hinar eru Skuggasund (2013) og Þýska húsið (2015). Sagan gerist árið 1943 í Reykjavík og fjallar um atburði sem gerast eftir að lík rekur á fjörur í Nauthólsvík.
Rithöfundasamband Íslands óskar Arnaldi til hamingju með Blóðdropann 2017!