Vegna fyrirspurna:
Kæru félagar, spjallþræðir veraldarvefsins geta verið erfiður vettvangur fyrir svona samræður, en við gerum okkar besta til að svara því sem lagt er fyrir. Að hittast og heyrast er þó alltaf notalegasta leiðin til samskipta og við hvetjum fólk til að hafa samband við okkur og vinna með okkur.
Varðandi einstaka nefndarmenn í úthlutunarnefndum hjá Stjórn listamannalauna þá hefur stjórn RSÍ ekkert með störf þeirra að gera og getur ekki svarað fyrir þau. Stjórnin tilnefnir einstaklinga í úthlutunarnefnd en veit svo ekkert af störfum þeirra frekar en aðrir fyrr en niðurstöður eru birtar opinberlega.
Stjórn listamannalauna er alfarið á vegum hins opinbera og svarar fyrir störf úthlutunarnefnda. Nefndirnar starfa aðeins á vegum Stjórnar listamannalauna. Samkvæmt lögum skipar ráðherra eftir tillögum frá fagfélögum listamanna í úthlutunarnefnd til eins árs og enginn má sitja þar lengur en þrjú ár. Enginn hefur verið rekinn úr þessari nefnd.
Stjórnir RSÍ, fyrrverandi og núverandi, hafa unnið eftir lögum og reglugerðum sem aðrir setja og farið að lögum í einu og öllu og framfylgt því sem löggjafinn boðar. Verklagið hefur svo verið borið undir aðalfund á hverju vori til samþykktar. Önnur fagfélög listamanna hafa haft svipaðan háttinn á.
En armslengdar er þörf eins og réttilega hefur verið bent á. Við höfum þegar gripið til ráðstafana og farið í samstarf við önnur fagfélög um stofnun starfshóps sem komi með tillögur að verklagi fyrir félögin. Starfshópur hefur nú hafið störf á vegum Bandalags íslenskra listamanna. Við kynnum tillögur hópsins þegar þær liggja fyrir, en nú er mál að linni og að fólk snúi bökum saman.
Að lokum, vegna umræðunnar um víðan völl, þá er formaður RSÍ ekki starfsmaður sambandsins. Hann er kjörinn til tveggja ára og er starfandi rithöfundur eins og aðrir stjórnarmenn og félagsmenn. Varaformaður er einnig kjörinn til tveggja ára og sömuleiðis stjórn. Allir stjórnarmenn eru í sjálfboðaliðavinnu fyrir sambandið, en formenn hafa ávallt þegið þóknun í formi verktakagreiðslu sem kemur til móts við útlagðan kostnað formanns vegna notkunar á eigin bíl, síma og tölvu í þágu embættisins. Því fer fjarri að sú þóknun jafngildi fullum launum. Kosningar eru á hverju vori og stjórnarmenn því flestir nýlega komnir til starfa.
Með vinsemd og hlýjum kveðjum,
stjórn RSÍ