Næstkomandi fimmtudagskvöld, 22. október kl. 20.00, fer annað höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Halla Þórlaug Óskarsdóttir spjalla við þá Jón Kalman Stefánsson og Sigurjón Bergþór Daðason um nýútkomnar bækur þeirra, auk þess sem höfundarnir lesa úr bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.
Jón Kalman Stefánsson gefur um þessar mundir út hjá Bjarti skáldsöguna Eitthvað á stærð við alheiminn, en hún er framhald bókarinnar Fiskar hafa enga fætur sem kom út árið 2013. Hér lýkur ættarsögunni sem hófst í þeirri bók og teygir sig frá Norðfirði forðum til Keflavíkur dagsins í dag, með viðkomu á Miðnesheiðinni. Sigurjón Bergþór Daðason gefur út hjá Veröld skáldsöguna Hendingskast, en í henni er sagt frá óvæntum atburðum sem koma róti á líf sögupersónanna. Þetta er fyrsta bók Sigurjóns en hann starfar einnig sem klarinettuleikari.