Helgi Guðmundsson rithöfundur er látinn.
Helgi fæddist 1943 í Staðarsveit á Snæfellsnesi en ólst upp í Neskaupsstað og Norðfjarðarhreppi. Hann var húsasmíðameistari, vann ötullega að verkalýðs- og félagsmálum og starfaði sem ritstjóri Þjóðviljans síðustu tvö útgáfuár blaðsins.
Helgi var félagi í Rithöfundasambandi Íslands frá árinu 1991 og sinnti ýmiss konar ritstörfum. Meðal annars ritað hann sögu vinstrihreyfingarinnar á Norðfirði (Þeir máluðu bæinn rauðan) og hreyfingar iðnnema (Með framtíðina að vopni). Einnig var Helgi kunnur fyrir barnabækur sínar um hinn uppátækjasama kött Markús Árelíus.
Umfjöllun um ritferil Helga og skemmtilegan pistil eftir hann sjálfan má finna á bókmenntavef Borgarbókasafnsins.
Helgi lést á sjúkrahúsinu á Akranesi þann 26. ágúst síðastliðinn, 81 árs gamall. Útför hans fer fram frá Akraneskirkju 12. september kl. 13:00.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Helga samfylgdina og vottar fjölskyldu hans og ástvinum innilega samúð.